Wednesday, 25 June 2008

Strokkur rokkar!


Við erum nú á faraldsfæti, þar sem ég er í "jólafríi" milli anna í skólanum. Við höfum eytt síðustu viku í að keyra suður eftir norðureynni og erum núna stödd í góðu yfirlæti hjá frænku Hrannar. Á leiðinni hingað höfum við skoðað hella með ljósormum, nokkuð af jarðhitasvæðum og þar á meðal goshver sem átti að vera helmingi hærri en Strokkur. Við borguðum okkur inn í "Waiotapu Thermal Wonderland" og fylgdumst með þegar Lady Knox var gangsett með 300g af sápu. Vonbrigðin voru umtalsverð þar sem goshverinn er bara 6 metra há mjó buna af vatni og froðu. Þetta nær varla að jafnast á við það þegar einhver keyrir yfir brunahana í Hollywood mynd og við vorum sammála um að Strokkur væri alla vega 100 sinnum tilkomumeiri. Ísland - bezt í heimi! En hverirnir og leirpyttirnir voru samt mjög litríkir og fallegir og alveg ferðarinnar virði. Næst var haldið í vínsmökkunarferð í Hawke's Bay, þar sem við brögðuðum um 20 vín á þremur búgörðum (eins gott að við vorum með bílstjóra, þar sem íslenska blóðið bannaði algerlega að hrækja veigunum út úr sér). Síðasti leggurinn lá um grænar grundir til höfuðborgarinnar Wellington þar sem við skoðuðum risastórt lista-, náttúrufræði- og sögusafn. Við gáfum okkur líka tíma til að smakka nokkra bjóra í "Mac's Brewery" í miðbænum og lesa okkur aðeins til um bruggun.

1 comment:

Anonymous said...

hress biður að heilsa... hróa lokið og allur hópurinn kominn heim þó nokkur stykki hafi slasast og enn önnur endað tattúveruð... alla veganna tveir óverdósuðu á dósabjór og eiga í erfiðleikum með að höndla mjöðinn... aðrir fengu sér verndartákn á kroppinn til að verjast veikinni... guði sé lof að ölimpíuleikunum var frestað....