Sunday, 16 November 2008

Við erum nýkomin heim frá Cook eyjum þar sem við eyddum síðustu viku. Ferðin var æði í alla staði og ég vildi að við hefðum getað verið í viku í viðbót. Eins og flestir vita erum við á heimleið og eigum bara nokkra daga eftir í Auckland. Ótrúlegt hvað hvað tíminn hefur verið fjlótur að líða. Ég hlakka mikið til að sýna myndir og segja sögur af ferðum okkar en þetta verður líklega síðasta færslan frá Nýja Sjálandi:( Þar sem við erum að loka netinu, rafmagninu og ganga frá lausum endum áður en við leggjum í´ann heim á þriðjudaginn.

Að lokum kemur ein lítil mynd af okkur hjónaleysunum með 50 kílóa túnfiskflykkið sem við veiddum á Cook:) Ekki amalegt eintak það!

Wednesday, 5 November 2008

Coromandel skagi

Vá hvað við höfum verið dugleg að skrifa

... Alveg heil færsla á mánaðar fresti. Við höfum brallað ýmislegt á þessum mánuði og hér kemur fyrsti hlutinn.Fyrir nokkrum vikum fórum við í 2ja daga ferð útá Coromandel skaga en hann er um 200 km frá Auckland. Við ætluðum að byrja á því að klífa Castle rock en útsýnið af toppnum á víst að vera frábært. Við komumst því miður ekki svo langt vegna vegavinnu og einkavega. Við héldum að við værum á leiðinni að fjallinu en í staðin keyrðum við í gegnum gamalt skógarhöggssvæði og allsstaðar komum við að lokuðum einkavegum.

Það er ótrúlega algengt hér að náttúruperlur séu í einkaeigu og fólk þurfi að borga til að sjá þær. T.a.m. er stærsti goshverinn á Nýja Sjálandi í einkaeigu sem og virkasta eldfjallið hér, White Island. Þetta er fáránlegt og ég er búin að pirrast mikið yfir þessu. Ímyndið ykkur ef þið mættuð ekki klífa Esjuna eða horfa á strokk gjósa án þess að punga út seðlum í hvert skipti.


Alla vega.... þegar Castle rock var úr sögunni héldum við rúntinum áfram.

Við tókum stutta göngu í gegnum skóglendi og skoðuðum Kauri tré en þau verða víst mjög gömul og stór.


Síðan var haldið á ströndina. Eftir um hálftíma göngu komum við niður að New Chums beach, ég held að ég hafi aldrei komið á jafn fallega strönd og í þokkabót vorum við næstum því ein allan tímann sem við vorum þar.Eftir frábæran dag á ströndinni fórum við til Whitanga en þar áttum við pantaða gistingu, eigandinn fann svo til með okkur útaf ástandinu á Íslandi að hann gaf okkur „Íslendingaafslátt“. Við rifum okkur á fætur um 6 leytið og brunuðum niður á Hot water beach, við þurftum að vera snemma á ferðinni útaf háfjöru. Undir ströndinni er 60°C heitt vatn og maður getur grafið sér holu í sandinn og notið þess að sitja í heitum potti alveg þangað til flæðir að aftur.Um níuleytið vorum við aftur komin á veginn á leið að skoða Cathedral Cove.


Eftir það var klukkan rétt að nálgast 11 og við áttum allan daginn eftir (sniðugt að vakna svona snemma). Við fórum aftur til Whitianga og Sigurður Gísli skellti sér á sjókayak en ég lá á ströndinni og las. Svo dúlluðum við okkur bara í afslöppun þar til við héldum aftur til Auckland um kvöldmatarleytið. Þessi ferð var algjört æði, veðrið lék við okkur og við fengum smá lit (meira rauðan en sólbrúnan).

Wednesday, 8 October 2008

Heimur versnandi fer....

Baráttukveðjur til allra ykkar sem sitjið í súpunni heima. Ef illa fer skal ég senda matarpakka til þeirra sem hafa verið góðir við mig í gengum tíðina. Við Hrönn höfum eytt miklum tíma í það undanfarið að hala niður fréttum af þessari ógurlegu kreppu en skiljum samt frekar lítið í því sem er að gerast. Við vorum svo "heppin" að millifæra peninga frá Íslandi núna rétt fyrir helgi svo við erum í frekar góðum málum, svona miðað við aðra, alla vega þar til við förum að leita að vinnu heima.
Annars er allt gott að frétta héðan, mér gekk alveg ágætlega með stórt verkefni sem ég var að klára í skólanum og við fórum í grillveislu, sem var haldin innandyra vegna rigningar. Veðurspáin hérna er virkilega slæm, þeir spá stutt fram í tímann, ekki mjög nákvæmt og iðulega vitlaust. Í fyrrakvöld birtist maður frá almannavörnum í sjónvarpinu og sagði fólki að ganga frá lausamunum þar sem von væri á stormi kvöldið eftir. Við kíktum því á veðurfréttir um morguninn og þá var spáin fyrir Auckland "mostly fine" og ekki minnst einu orði á stormviðvörun úr fyrri spá. Mér skilst að þetta sé ekki vegna þess að allir veðurfræðingar hérna séu illa gefnir, heldur eru veðurskilyrðin hérna víst sérstaklega ófyrirsjáanleg.
Til þess að leggja okkar af mörkum í lausafjárkreppunni ætlum við að flytja heim 24 milljónir nýsjálenskra dollara sem til stendur að vinna í lottóinu hérna á laugardaginn. Ég myndi segja ykkur hvað það er í íslenskum krónum, en það er víst eitthvað á reiki núna.
Framundan hjá okkur er tvítugsafmæli hjá stelpu sem við fórum að kafa með um daginn, og næst þegar sólin skín (án rigningar) stendur til að fara niður á strönd. Myndirnar á Flickr verða uppfærðar fljótlega.

Tuesday, 23 September 2008

Peningar í pósti

Um daginn fengum við Sigurður Gísli greiddan út arð frá rafveitunni. Við fengum endurgreiðslu upp á rúmar 19 þúsund krónur og við höfum ekki hugmynd um afhverju. Sérstaklega þar sem við höfum greitt um 19 þús í rafmagn síðan við fluttum inn. Þessir fjármunir koma sér sérstaklega vel núna þar sem heimilið þarf að fjárfesta í nýju skóhorni. Þannig er mál með vexti að sl laugardagskvöld sátum við skötuhjúin uppi í sófa og lásum þegar barið var að dyrum. Við urðum frekar hissa þar sem klukkan var tæplega ellefu að kvöldi og við áttum ekki von á neinum. Hérahjartað ég sendi Sigurð Gísla til dyra og eftir að hafa kíkt í gægjugatið á útidyrahurðinni ákvað hann að opna fyrir stelpunni. Hún reyndist vera all ölvaður maður með sítt hár og í engu nema jakka af kærustunni sinni. Kallgreyið hafði læst sig úti og vantaði eitthvað til að spenna gluggann upp með. Þar sem Sigurður treysti manninum ekki fyrir leddaranum (leatherman..) fékk hann plastherðatré og skóhorn. Hvorki hefur sést til herðatrésins né skóhornsins síðan, reyndar höfum við ekki séð til mannsins heldur. Við höfum mikið pælt í því hvernig hann fór að því að læsa sig úti allsber í jakka af kærustunni, sérstaklega þar sem hún var fjarri góðu gamni.

Saturday, 13 September 2008

Göngutúrinn mikli

Við erum að fara hingað . Það tók okkur bara 8 tíma að velja ákvörðunarstað og kaupa miðana. Sigurður var komin á það að stoppa bara í Færeyjum á heimleiðinni til að einfalda hlutina. Þetta hafðist þó allt að lokum og við eigum viku á paradísareyju í vændum. Við fjárfestum líka í flugmiðum heim og verðum komin á klakann í lok nóvember.

Laugardaginn 6.sept kynntumst við betri hliðum Auckland þegar við gengum „coast to coast“ (sjá kort hér) í blíðskaparveðri. Leiðin liggur frá norðurstönd til suðurstrandar borgarinnar í gegnum almeningsgarða og eldkeilur en hvort tveggja er á víð og dreif hérna. Faðir borgarinnar, John Logan Campbell var svo forsjáll á þarsíðustu öld að gefa borgarbúum almenningsgarð á stærð við Garðabæ. Þegar við gengum í gegnum hann voru tveir rúgbý leikir í gangi með nokkur hundruð áhorfendum,


fjölskyldur og vinir að grilla og leika sér á víð og dreif um garðinn. Í miðjum garðinum er eldfjallið One Tree Hill sem við gegnum uppá. Á uppleiðinni mættum við tveimur ofurhugum á kassabílum á fleygiferð niður fjallið (klikkað lið).


Það væri óskandi að Reykjavík ætti svona almenningsgarða en ekki bara ferköntuð tún á víð og dreif. Göngutúrinn endaði frekar dapurlega þegar við komum út að hálfþornuðu lóni við hraðbraut á suðurströndinni, við vorum ekki einu sinni alveg viss um að við værum komin á leiðarenda. Þrátt fyrir að Auckland búar telji almenningssamgöngur sínar ömurlegar fundum við strætó með lítilli fyrirhöfn og nokkurra mínútna bið. Allt í allt gengum við 20 km á 5 tímum og áttum því vel skilið að fá okkur einn kaldann við heimkomuna. Á miðnætti heilsaði Sigurður síðan uppá hresslinga með aðstoð veraldarvefsins og vefmyndavéla en Hrönn var alveg búin eftir gönguna og steinsvaf.

Wednesday, 10 September 2008

Poor Knights köfun

Um þarsíðustu helgi fórum við að kafa með köfunarklúbb Auckland Háskóla. Ferðinni var heitið til Poor Knight´s Islands sem eru um 2 klst norður af Auckland. Þessar eyjar eru á topp 10 lista hins fræga kafara Jacques Cousteau yfir bestu köfunarstaði í heimi (ásamt Silfru í Þingvallavatni). Á laugardeginum var siglt af stað í bítið og fengum við leiðsögn höfrunga að eyjunum.

Þar var kastað út akkeri og hent sér í sjóinn. Hrönn var ansi ryðguð og mundi varla eftir því að anda inn og út! Fyrsta köfunin fór því að mestu leyti í upprifjun og að læra að átta sig neðansjávar þar sem þetta voru fyrstu kafanirnar okkar án leiðsagnar. Eftir góðan hádegismat skelltum við okkur í kalda blautbúninga og aftur út í 14°C heitan sjóinn (sem er skítkalt). Kuldinn var hins vegar vel þess virði þar sem litadýrðin var engu lík og við rákumst á gaddaskötu (e. Stingray eins og drap Steve Irwin) ljóta moray ála og óteljandi fiskkvikindi af öllum stærðum og gerðum.


Daginn eftir var aftur haldið út að morgni til, í þetta skiptið ultum við frekar hressilega og nokkrir meðkafarar föðmuðu borðstokkinn og skiluðu morgunmatnum, einn var meira að segja svo sniðugur að gubba á blautbúninginn hans Sigurðar Gísla. Við eyjarnar var hins vegar blanka logn og frábær köfun. Við settum dýptarmet (30 m) og köfuðum inn í helli þar sem við enduðum í torfu af bláum mao mao fiskum.

Á heimsiglinunni varð flestum bumbult en sem fiskimannaafkomendur létum við það ekki á okkur fá. Eins og sést á myndinni hér að neðan á sjómannslífið svo vel við Sigurð að hann gat meira að segja leyst skipperinn af.


Myndirnar af skötunni og álkvikindinu eru fengnar héðan.

Thursday, 28 August 2008

Matarævintýri og sjálfsstæðisdagur


Við Hrönn fórum í asískan ofurmarkað um daginn á leiðinni heim sem hluta af "prófa nýjan mat herferðinni" okkar. Ég ákvað að byrja rólega og kaupa eggjanúðlur, lesa bara á pakkann og vera viss um að klúðra engu. Leiðbeiningarnar voru á ensku eða þar um bil: When taken, first it is required to stir-fry ingredients tin its cooked. Add condiments and some soup and then place in the Whole for 2-3 minutes and serve. Ótrúlegt en satt, þá var útkoman bara ágætismatur.
Við keyptum nýjan ávöxt sem heitir Paw Paw en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var ávöxtur sem þekkist líka sem papaya og fyrsti hlutinn af honum bragðaðist frekar illa - við höldum að restin verði betri af því að eldast aðeins á borðinu:~)
Við fengum átta 50 gramma flök af einhverjum fiski sem ég get ekki einu sinni stafað fyrir 600 í "venjulegum" ofurmarkaði sem var í kvöldmat og bragðaðist dável.
Við skötuhjúin erum alveg orðin vön því að vera bíllaus og fara allra okkar ferða á tveimur jafnfljótum. Við tókum meira segja tröppurnar (5 hæð) eftir að hafa gengið heim úr New World matarbúðinni sem er ca kílómeter í burtu - og allt upp í móti þegar maður er á heimleið!
Þótt að skólinn hérna snúist mikið til um að læra alveg eins og heima, þá eru samt smáatriði sem eru öðruvísi, t.d. sá ég um daginn í skólanum að það var óvenjumikið af fólki í litríkum baðmullarfatnaði. Í hádeginu voru svo indverskir tónleikar í tilefni þjóðhátíðardags Indlands. Mjög skemmtileg tilbreyting frá lestrinum!
Við Hrönn fórum í göngutúr upp á Mt Eden, eitt af 53 þremur eldfjöllum í Auckland og þaðan er einmitt myndin efst á síðunni. Þetta var ekki mikil hækkun en útsýnið alveg frábært og það er á hreinu að fleiri eldfjöll verða klifin þegar veður leyfir.
Ég fór í vikulanga "vettvangsferð" (field trip) á jarðvarmasvæði hérna um daginn og er búinn að læra alveg heilan helling og hvernig á að veiða rafmagn úr iðrum jarðar - og greyið Hrönn líka þegar ég kom heim og talaði ekki um annað.

Við urðum vör við að framganga Íslands á Ólympíuleikunum fékk marga Nýsjálendinga til þess að horfa á sinn fyrsta handboltaleik. Flestum leist ágætlega á sportið, en ég sé ekki fyrir mér að það grípi um sig mikið handboltaæði hérna. Við fórum út í garð í dag í góða veðrið í smá fótbolta og þar var bara rúbbí eins og venjulega hjá staðarstrákunum.

Góðar stundir!

Monday, 18 August 2008

Star Wars var það heillin

Mikið rétt. Sigurði Gísla hefur einmitt verið líkt við R2D2 enda alltaf að sansa eitthvað.


Hvað hvarðar myndagátuna þá er þetta ekki mynd af hausnum á Sigurði heldur krúttlegur broddgöltur sem ég fann úti á götu.

Wednesday, 13 August 2008

Gettu betur

Um daginn var bíókvöld á heimilinu og í myndinni sem við horfðum á kom þessi gullmoli.

"For a mechanic you do an awful lot of thinking."

Ég sprakk úr hlátri af því að þetta á ansi vel við ákveðinn bifvélavirkja á heimilinu.
Nú spyr ég hver sagði þetta við hvern og í hvaða bíómynd?

Spurning 2
Hvað er þetta?

Wednesday, 6 August 2008

Fyrir fólk með einfaldan húmor

Þetta finnst mér rosalega fyndið

Tuesday, 29 July 2008

Fréttaskot

Takk fyrir afmæliskveðjurnar:) Ég átti bara fínan afmælisdag þrátt fyrir að hafa engan nálægt til að dekra mig.

Eftir því sem ég eldist því meira sæki ég í fréttir. Eins og ég þoldi ekki fréttatímann þegar ég var lítil! Fréttirnar hér eru frekar lélegar. Ég las t.d. um óveðrið sem geisaði hér um síðustu helgi á mbl! Mér finnst eins og lögð sé meiri áhersla á rúbbý og frægt fólk frekar en fréttnæma hluti. T.d þykir merkilegra að fyrirlið All blacks sé orðin spilfær eftir meiðsli heldur en að þrír létust í óveðrinu sem gekk yfir um síðustu helgi. Fyrirliðinn fær a.mk. meiri umfjöllun. Annað sem kemur mér á óvart er hversu mikið er um ofbeldi hérna. Morð, rán, klíkur og sérstaklega heimilisofbeldi. Það er ótrúlega mikið auglýst hérna, hvert eigi að leita eftir hjálp og að hvetja konur til þess. Á heimasíðu hérlendra Stígamóta kemur fram að ein af þremur NýSjálenskum konum upplifa líkamlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi, einhvern tímann á lífsleiðinni, af hendi maka. Konur og börn eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi heima hjá sér en úti á götu. Mér finnst þetta ansi ótrúlegar tölur. Kannski er ég bara svona græn af því að ég er ekki vön slíku á litla Íslandi.

Óveðrið um síðustu helgi var það svaðalegasta í c.a áratug. Ég fann eiginlega ekkert fyrir því í Auckland enda var það verst fyrir sunnan okkur. Núna er önnur viðvörun, ekki jafn hvasst en spáð er 12 tíma úrhelli og miklum flóðum og þegar rignir hérna þá rignir. Um daginn var bara venjuleg rigning og flest niðurföll full og litlir lækir skoppandi eftir götunum.Sunday, 27 July 2008

All by myself.....


Afmælisdagurinn byrjaði ekki vel. Ég kvaddi Sigurð Gísla fyrir hálf átta í morgun. Hann fór í skólaferðalag að skoða orkuver og hveri einhversstaðar (hann mun örugglega skrifa æsispennandi ferðasögu þegar hann kemur heim) og ég er only the lonley í 6 daga. Ég þekki eiginlega engan hér og er ekki enn komin með vinnu (m.ö.o. atvinnulaus), ég hef því eiginlega ekkert að gera á daginn. Það sem verra er að ég á eiginlega engan pening og get ekki einu sinni keypt mér vini!

Ég spanderaði samt í dag (afmælisgjöf frá mér til mín). Fór í bíó á Auckland film festval og sá Shadow of the Holy book. Í fyrsta skiptið sem ég fer ein í bíó og það var hreinlega ekki svo slæmt. Myndin er drullugóð, fyndin og fær mann til að hugsa.

Afmæliskvöldverðurinn verður svo spagetti með léttsteiktu nautakjöti, portobello sveppum og parmesan osti og til að toppa einveruna, ein flaska hvítvín yfir star wars: the phantom menace.

Good times:)

Saturday, 19 July 2008

Vetrarferð


Suðureyja Nýja Sjálands hefur verið viðfangsefnið síðustu vikur. Við gistum fyrstu nóttina hjá frænku Hrannar (hún á skyldfólk út um allt hérna). Þau voru afskaplega gestrisin og bjuggu í húsi sem var kynt með einum viðarofni (6 herbergi). Næst fórum við í Abel Tasman þjóðgarðinn sem er alveg æðislegur. Þetta er einhver vinsælasti staðurinn hérna en þar sem það er hávetur þá áttum við staðinn nánast út af fyrir okkur. Við tókum "vatnaleigubíl" inn í þjóðgarðinn og fórum fyrstu dagleiðina á sjókajak með fram fallegri strandlengju fram hjá selavöðum og sandströndum. Nóttinni var eytt í frumstæðum trékofa og svo var gengið um 24 km til byggða í gegnum skóginn meðfram ströndinni.

Til að horfa á úrslitaleikinn á EM með nokkrum Þjóðverjum á hostelinu okkar, þurftum við að vakna klukkan hálfsjö sem er eiginlega fullsnemmt þegar maður er í fríi. Þjóðverjarnir áttu ekki í neinum vandræðum með að vakna og sumir fengu sér meira að segja bjór í morgunmat. Eftir það keyrðum við niður vesturströndina þar sem rigningin nær víst einhverjum 7000mm á ári. Við fögnuðum 8 ára afmælinu okkar í Greymouth, gistum á Hotel Revington, fórum í skoðunarferð um Monteith's Brewery og borðuðum "all you can eat BBQ", sem stóð ekki alveg undir nafni en dagurinn var nú samt góður þar sem mér tókst að koma Hrönn á óvart með því að kaupa handa henni Paua eyrnalokka (það er erfitt að kaupa óvænta gjöf handa einhverjum sem maður er með 24 tíma á sólarhring). Eftir að hafa kíkt aðeins á Frans Josef skriðjökulinn í smá rigningu keyrðum við lengra suður á bóginn og lentum í svo gríðarlegri rigningu að það sást varla út úr augum.
Í suður-Ölpunum, eins og þeir kalla fjallgarðinn sinn hérna, gistum við í Wanaka og Queenstown sem eru afskaplega fallegir bæir við fjallavötn. Við reyndum fyrir okkur á snjóbrettum sem var mjög gaman þar til fjallinu var lokað út af snjóbyl. Rútan sem við vorum á þurfti að stoppa til að keðja, þótt það væri nú ekki mikill snjór. Dekkin á rútunni voru hins vegar algerlega munsturlaus svo keðjurnar eru skiljanlegar. Nagladekk virðast óþekkt fyrirbæri hérna en hins vegar er sums staðar skylda að vera með keðjur ef færðin er ”þung”.

Við keyrðum norður eftir austurströndinni og stoppuðum á fjölmörgum stöðum til að skoða dýralíf og náttúrufegurð á leiðinni til Dunedin, sáum m.a. mörgæsir, sæljón og albatrossa. Í Dunedin gengum við eftir átthyrndum götum í miðbænum sem kallast the Octagon. Á leiðinni til Christchurch stoppuðum við á strönd með fullt af stórum kúlalaga steinum (1-2m í þvermál). Ég las jarðfræðiútskýringu á því hvernig þeir urðu til en ég ætla ekki að svæfa ykkur. Í Christchurch, sem er mjög falleg borg, var tímanum eytt í að þramma um götur bæjarins í sólskini og prófa kaffihúsin og veitingastaði.

Núna erum við komin ”heim” til Auckland aftur, alvara lífsins tekin við, ég að byrja í skólanum aftur og Hrönn í atvinnuleit. Við gáfum okkur samt tíma til að fara á kvikmyndahátið hérna í gær, við sjáum brasilísku myndina Tropa de Elite í risastóru leikhúsi og mælum eindregið með henni, hún nær spennu og gríni Hollívúdd mynda en er um leið átakanleg þar sem viðfangsefnið er talsvert raunverulegra en maður á að venjast.

Wednesday, 25 June 2008

Strokkur rokkar!


Við erum nú á faraldsfæti, þar sem ég er í "jólafríi" milli anna í skólanum. Við höfum eytt síðustu viku í að keyra suður eftir norðureynni og erum núna stödd í góðu yfirlæti hjá frænku Hrannar. Á leiðinni hingað höfum við skoðað hella með ljósormum, nokkuð af jarðhitasvæðum og þar á meðal goshver sem átti að vera helmingi hærri en Strokkur. Við borguðum okkur inn í "Waiotapu Thermal Wonderland" og fylgdumst með þegar Lady Knox var gangsett með 300g af sápu. Vonbrigðin voru umtalsverð þar sem goshverinn er bara 6 metra há mjó buna af vatni og froðu. Þetta nær varla að jafnast á við það þegar einhver keyrir yfir brunahana í Hollywood mynd og við vorum sammála um að Strokkur væri alla vega 100 sinnum tilkomumeiri. Ísland - bezt í heimi! En hverirnir og leirpyttirnir voru samt mjög litríkir og fallegir og alveg ferðarinnar virði. Næst var haldið í vínsmökkunarferð í Hawke's Bay, þar sem við brögðuðum um 20 vín á þremur búgörðum (eins gott að við vorum með bílstjóra, þar sem íslenska blóðið bannaði algerlega að hrækja veigunum út úr sér). Síðasti leggurinn lá um grænar grundir til höfuðborgarinnar Wellington þar sem við skoðuðum risastórt lista-, náttúrufræði- og sögusafn. Við gáfum okkur líka tíma til að smakka nokkra bjóra í "Mac's Brewery" í miðbænum og lesa okkur aðeins til um bruggun.

Tuesday, 3 June 2008

Vetrarfrí

NýSjálendingar eru sjúkir í rúbbý. Landsliðið þeirra heitir All blacks og í hverjum einasta fréttatíma er sýnt frá æfingu hjá þeim og viðtal við leikmenn og þjálfara. Þeir fá bara ekki nóg. Þetta er einhver rosalegasta íþrótt sem ég hef séð. Allt öðruvísi en amerískur rúbbý þar sem leikmennirnir standa bara út á vellinum í brynjunum sínum af því að það er alltaf leikhlé. Það er ekki málið hér. Leikmennirnir eru allir yfir 1.80m og 100kg af vöðvum og það er aldrei leikhlé (nema náttúrulega í hálfleik), þeir eru ekki með neinar brynjur og hika ekki við að berja eða hlaupa næsta mann niður til að koma boltanum yfir línuna. Við skötuhjúin erum að fara á leik í kvöld, All blacks vs. England.
Ég veit ekki af hverju liðið heitir All blacks, sérstaklega af því að þeir spila í bláum búningum! Öll landslið hérna heita eitthvað, fótboltaliðið er All Whites, krikket liðið er Black caps og netball lið kvenna er Silver furns.

Undanfarnar tvær vikur hafa að mestu farið í rólegheit, rölta um borgina, finna skemmtilegar búðir, veitingastaði og kaffihús. Það hefur verið fínt en núna þarf ég að fá vinnu bráðum. Það tekur á að vera í fríi, sérstaklega þegar maður „gerir ekkert“. Sigurður Gísli lærir og lærir, enda í prófum. Á mánudaginn er síðasta prófið hans og þriðjudagurinn fer í að klára eh skýrsludruslu en á miðvikudaginn förum við í þriggja vikna road trip og ég get ekki beðið. Það er allt klappað og klárt og það eina sem vantar núna er ökumanninn. Maður fer víst ekki langt án hans. Ég get ekki keyrt hérna, ég hef ekki reynt það ennþá en ég á í mestu vandræðum með að fara yfir götur. Er alveg orðnin rugluð og veit ekkert úr hvaða átt bílarnir koma. Það er doldið skrýtið að vera bíllaus allt í einu á gamals aldri. Ég er enn að venjast því að geta ekki bara hoppað útí bíl og farið þangað sem ég vil. Almenningssamgöngurnar hér eru ótrúlega lélegar. Þannig að ég labba bara allt sem ég þarf að fara.

Í gær fór ég með Jónasi sænska og Jóhönnu þýsku kærustunni hans til Piha. Jónas er brettagæi og fer oft þangað til að surfa. Hann ætlaði að kenna mér en sagði að sjórinn væri of kaldur, þannig að ég á það inni hjá honum. Piha er ótrúlegur staður rétt fyrir utan Auckland, risastór strönd með svörtum sandi og stökum klettum hér og þar. Ég eiginlega get ekki lýst því, þið verðið bara að kíkja á myndirnar sem ég set inn seinna.

Um síðustu helgi tókum við okkur bílaleigubíl og keyrðum til Whangapharaoa en þar býr frændi. Hann er orðin 82 ára kallinn og þegar ég talaði við hann í síma misskildum við víst hvort annað. Hann bauð okkur að koma í heimsókn og ég hélt að hann hefði sagt okkur að koma late afternoon, en við áttum víst að mæta uppúr hádegi og þau voru orðin ansi áhyggjufull, voru meira að segja að íhuga að hringja á lögguna og kalla út leitarlið. Við komum til þeirra um hálffjögur og sátum hjá þeim í nokkra klukkutíma. Mér finnst alveg magnað að fara hinum megin á hnöttin og svo kemur í ljós að maður á skyldfólk þar.

Saturday, 31 May 2008

Komin

Ég náði á leiðarenda, jei! Ég var samt doldið þreytt og mygluð þegar hann Sigurður minn kom og tók á móti mér.

Síðan ég kom, síðasta sunnudag, hef ég nú ekki gert ýkja mikið. Labbað doldið um borgina og eiginlega bara ekkert annað. Ég verð að segja að Auckland er ekkert rosalega stór og mér finnst ekki eins og ég sé í tæplega tveggja milljón manna borg. Ég er reyndar með harðsperrur og hef verið með síðan ég kom. Við eigum náttúrulega engan bíl núna (sem er fáránlega erfitt) og göturnar hérna eru bara brekkur. Erfiðast var þó að labba út í búð til að kaupa í matinn og bera hann svo aftur heim, úff.

Íbúðin okkar er rosa fín, svoldið lítil, en rosa flott. Húsgögnin eru ný og eldhúsið er ótrúlega fancý. Fyrst fannst mér staðsetningin alveg glötuð, enda rataði ég ekkert. Núna er ég helsátt og hef eiginlega allt í kringum mig sem ég þarf, nema matarbúðin mætti vera aðeins nær. Internet tengingin hér er drasl, ég get varla horft á youtube myndbönd og ég sakna HÍ netsins sem var 10 sinnum hraðara en það sem við erum með núna. En hei maður fær ekki allt.

Núna er löng helgi útaf afmæli drottningarinnar á mánudaginn en hún á samt ekki afmæli fyrr en í ágúst. Mjög spes. Við ætluðum að fara eitthvert útút borginni en Sigurður Gísli þarf að læra og ég er ekkert spennt fyrir því að fara ein. Þannig að í bili er ég bara heimadrekkandi húsmóðir.

Saturday, 24 May 2008

Hálfnuð

Núna eru bara ca. 20 tímar þar til ég kemst til Nýja Sjálands :)

Núna sit ég á LAX og bíð eftir fluginu mínu. Ég held að þetta sé ömurlegasti flugvöllur sem ég hef komið á en ég þarf bara að vera hérna í rúma 5 tíma í viðbót.

Friday, 25 April 2008

Turist og skoledreng

Nu er det ved at være på tide at jeg presenter et lille update på den forhenværende kolonimagts sprog. Meget er sket siden jeg forlod Danmark, men jeg vil prøve at forholde mig til det som kommer mig ved. De første par uger her i landet var rimelig hektiske, det var mange introfester som skulle klares, et universitetssystem som skulle forstås og generalt mange ting som skulle købes fra butikker som jeg ikke kendte. Men det fik jeg så styr på og skolen startede forholdsvis roligt. Jeg bor i et 9 kvm værelse 5 minutters gang fra ingenør bygningen på uni, og kun et kvarter fra centrum. Udmærket placering men en rimelig dårlig bolig og den er også lidt dyr. Men mine 3 bofæller er udmærkede og der er gang i den her i weekenderne (nogle gange måske lidt for meget, for sådan en gammel mand som mig).

Jeg benyttede chancen mens skolen var rolig og kom væk fra Auckland, til Bay of Islands, hvor jeg var på sejltur med en hel masse andre udenlanske studenter. Det var en god tur, vi fik kanon godt vejr og der var mulighed for at snorkle, sejle kano og lege på stranden. Busturen frem og tilbage var til gengæld rimeligt skod, en gammel Mercedes spand som kom helt ned på tyve i timen op ad bakkerne.

En vandretur i lavaområdet hvor noget af Lord of the Rings blev filmet fik jeg også klaret. Jeg gik 60 km på tre dage med en Amerikaner (Joe) og vi gik op ad bakker på en total højde af 3500 meter (nørd som jeg er, tog jeg en gps børge med). Det var en ret fantastisk oplevelse, meget smuk natur og jeg fandt ud af at denne rejsemåde passer mig ganske godt. Kig på billederne, forhåbentlig kan de vise noget af det som jeg fik set.

HMNZS Canterbury blev sunket for et halvt år siden og det skulle undersøges på en dykkertur. Jeg dykkede 4 gange på en rigtig god weekend og kom helt ned på 30 m dybde. Vi dykkede også i undersøiske huler og inde i vraget, som var en ny og spændende oplevelse for mig.

Jeg har kigget på noget af byens natteliv, men de fleste øl bliver kværnet på studenterbaren på Universitetet, den er tæt på og billig, jeg giver 25 DKK for en litersbamse, men det er nærmest en standard størrelse på den bar. New Zealændere er et rimelig godt folkefærd, de er næsten alle sammen ekstremt venlige og altid parat til at hjælpe udlændingen. Samfundet er meget multietnisk, med de indfødte Maori og en hel del folk fra rundt omkring i Asien. Man kan få sushi og andet lignende over det hele men de er også rimelig glade for sine „pies“ her.

Jeg har travlt med skolen for tiden og så er jeg også begyndt at gå til fodbold, men uheldigvis tager det alt for meget tid eftersom jeg bliver nødt til at bruge Aucklands bussystem, som er meget ringe, specielt hvis man har lidt kendskab til Københavns transportsystem. Jeg har ikke flere rejser planlagt indtil Hrønn kommer herned, men det er først om en måned (det er sgu lidt svært at vente). Det er såmænd alt hvad jeg har at sige foreløbig, send endelig en lille besked herned om hvad I foretager jer.

Monday, 21 April 2008

Köfun og landkynning

Nú hefur örlítið meira gerst heldur en síðast þegar ég skrifaði hérna. Ég fór í alveg æðislega köfunarferð með kafaraklúbb skólans um síðustu helgi. Ég kafaði 4 sinnum á tveimur dögum og skoðaði skipsflakið HMNZS Canterbury og neðansjávarhella. Þar sem ég hafði einungis kafað einu sinni undanfarin 5-6 ár var ég talsvert ryðgaður í þessu, en það kom allt saman fljótt aftur. Myndband úr köfuninni sést hérna, ég mæli með að þið hækkið hljóðið. Myndir af þessum ótrúlega viðburði eru væntanlegar á næstunni.Við samleigjendurnir fórum á bar í hæstu byggingu Nýja Sjálands (Sky Tower, 319m) fyrir nokkru. Þar var ágætis stemming, lifandi tónlist (gamlir kallar, en samt alveg ágætir) og eldhress barþjónn, sem meðal annars bauð upp á logandi skot, eins og sést á vinstri myndinni.

Áður en ég fór að kafa kynnti ég Háskóla Íslands á skiptinámsráðstefnu hérna í skólanum. Ég bjó til einstaklega öfluga landkynningu í formi aflbendilssýningar (powerpoint show) og hélt fyrirlestur fyrir heilar ÞRJÁR manneskjur. Fyrirlesturinn gekk vel, fyrir utan það að ég gat ekki fengið myndvarpann í gang svo ég þurfti að halda fyrirlesturinn á fartölvunni minni. Hún varð síðan rafmagnlaus í miðri sýningu. Niðurstaðan er sem sagt sú að þið þurfið ekki að óttast fjölmenna innrás Nýsjálendinga í HÍ.

Það var frí í skólanum í síðustu viku. Samleigjendur mínir nýttu tækifærið og forðuðu sér, en ég sat heima og lærði. Það var frekar leiðinlegt og ég saknaði Hrannar en meira en venjulega þegar ég var svona alveg einn. En nú eru ”bara” 48.639 mínútur þangað til Hrönn kemur til mín. Ótrúlegt hvað maður finnur sér að reikna þegar maður á að vera að læra.

Monday, 7 April 2008

Munurinn á Íslandi og Nýja-Sjálandi

Það hefur frekar lítið skemmtilegt gerst hjá mér undanfarnar vikur þannig að ég eyði ekki miklu púðri í að segja frá því. Það sem er einna mest spennandi er þegar ég kíki á gengi íslensku krónunnar á hverju kvöldi. Þar sem slatti af peningunum sem við Hrönn munum eyða hérna, er á Íslandi er eins og ég sé að spila Lottó á hverjum degi.

Þrátt fyrir að hafa flutt á milli landa nokkrum sinnum og ferðast á milli landa ótal sinnum áttaði ég mig samt ekki á því að ég myndi fá (vægt) menningaráfall við það að flytja til hins „vestræna“ Nýja Sjálands. Þetta eru allt saman smáatriði, en samt hlutir sem ég tek eftir, stundum um leið, en stundum fatta ég ekki fyrr en eftir á að eitthvað sé pirrandi af því að það er aðeins öðruvísi. Tökum nokkur dæmi:

Ég rata ekki í búðunum hérna. Það tók mig rúman mánuð að finna eyrnapinna, ég var farinn að heyra illa vegna of mikils eyrnamergs.
Sódavatn (kolsýrt vatn) hérna er flatt – það er eins og það hafi verið opið á borðinu í viku.
Það vinna miklu fleiri í búðum hérna. Samt finnst þeim allt í lagi að láta mann bíða í smástund áður en þeir afgreiða. Mjög pirrandi fyrir stressaðan einstakling eins og mig.
Það getur verið erfitt að skilja Nýsjálendinga út af hreimnum, sérstaklega þá sem tala hratt. Helstu einkenni nýsjálensks hreims eru að segja i í stað e (þeir segja t.d. iducation í stað education) og að draga a á langinn í sumum orðum (caaaaaaar þýðir bíll).
Kalda vatnið úr krananum er ekkert kalt – það er volgt og ekkert sérstaklega gott.
Kaffið er yfirleitt ekki gott og kostar 180 kall í nemendafélagsjoppunum – ég sakna Verkvals.
Þeir keyra vitlausu megin á veginum – það er ótrúlegt að ég hafi ekki labbað fyrir bíl ennþá.
En það eru góðir hlutir líka....
Fólk bíður góðan daginn með því að segja „how are you?“ og það hljómar eins og þeim sé hreinlega ekki sama – langflestir Nýsjálendingar eru mjög vinalegir (ekki vinsamlegir heldur vinalegir).
Stúdentabarinn hérna bíður upp á „jugs“ sem eru líterskönnur af bjór á NZ $6.70 sem eru um tæpar 400 ISK (í dag alla vega) og meira að segja stelpurnar drekka beint úr þessum fullorðinsbjórum.
Það fæst sushi alls staðar – meira að segja í skólasjoppunni. Þeir svindla samt aðeins – og setja stundum eitthvað kjötkyns í staðinn fyrir hráan fisk.
En aftur að mér, ég átti afmæli um daginn og þá fékk ég kort frá samleigjendum mínum sem eru að meðaltali rúmum átta árum yngri en ég. Þau voru ekki lengi að taka upp þráðinn þar sem vinir mínir (hresslingar) slepptu honum og byrjuðu strax að skjóta á mig, eins og sést á myndinni hér að neðan.

Ég pantaði mér alklæðnað um daginn á netinu, nánar tiltekið Hress Megastore, mæli eindregið með þessu, myndin hér að neða segir allt sem segja þarf (þið stelpurnar getið m.a.s. keypt þveng með þessu eitursvala merki á).


Á föstudaginn er skiptinámskynning og þar verð ég með 10 mínútna fyrirlestur um Ísland, endilega sendið mér línu ef þið hafið einhverja hugmynd um af hverju það er góð hugmynd að læra á klakanum.

Tuesday, 25 March 2008

Eldhryðja klifin!Skólaverkefnin hrannast upp þessa dagana en ég hef verið duglegur að "þykjast" vera ferðalangur síðustu helgar, áður en að Vetur konungur tekur völdin hérna. Fyrir viku síðan fór ég í æðislega siglingu um "Bay of Islands" sem er nokkrar klst. norður af Auckland. Eitt af því sem er öðruvísi hérna er að heimamenn mæla vegalengdir milli staða í ferðatíma, en ekki í kílómetrum eins og við erum vön. Í fyrstu talsvert skrítið og jafnvel óþægilegt en það venst vel.
En, eins og gefur að skilja, þá veltur ferðatíminn á faraskjótanum og í þessi ferð var hann af verri endanum, Mercedes Bens 0303 rúta sem var alveg að gefa upp öndina. Þegar leiðin lá upp í móti emjaði vélin svo varla var hægt að tala saman en rútan rétt silaðist áfram.
Við vorum um 50 manna hópur útlendinga frá háskólanum mínum, langflestir Kanar og margir þeirra ansi hressir. Við sváfum á gistiheimili í bænum Paiha (sjá að ofan), sem var ekki merkilegt nema hvað að þar var heitur pottur, en svoleiðis fyrirbrigði hafði ég ekki búist við að sjá fyrr en heima á Fróni.


Á sunnudagsmorgni fórum við í siglingu á mótor/segl tvíbytnu með eldhressri fjögurra manna áhöfn. Við sigldum um eyjarnar á flóanum og rákumst meðal annars á þessa seglskútu. Veðrið var yndislegt og einugis ríkulegar smurningar með sólarvörn komu í veg fyrir húðkrabbamein og stórbruna. Um hádegið fórum við í land á einni eyjunni og lékum okkar á ströndinni, ég sá nokkra fiska og risastóran krossfisk þegar ég var að "snorkla"
Skólavikan var ekki merkileg svo ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hana, en páskafríið var nýtt til fullnustu. Joe, bandarískur strákur sem býr á sömu stúdentagörðum og ég, var að plana gönguferð um helgina og ég skellti mér með honum. Við fórum hring um eldfjallasvæði sem kallast Tongariro Northern Circuit á þremur dögum. Fyrir þá sem hafa áhuga (Hinrik) má lesa um svæðið hér.

Við klifum tvo fjallstinda, Mt. Tongariro og Mt. Ngauruho en það fjall er betur þekkt úr Lord of the Rings, sem Mt. Doom (ísl. Eldhryðja) og það stendur fyllilega undir nafni, var hrikalega bratt og erfitt yfirferðar.


Mt. Ngauruhoe séð úr fjarlægð. Fjallið er tæplega 2300 metra hátt og rís 1200 metra yfir næsta nágrenni.

Við Joe (sem sést hér að ofan) gengum samtals 60 km á þessum þremur dögum, aðallega um hraun og eyðileg svæði sem minna mikið á gamla góða skerið. Eftir tveggja daga göngu í mikilli sól þar sem hver vatnsdropi skipti máli, komum við að skógi vöxnu svæði.


Okkur til ómældrar ánægju rákumst við á ískalda á í skóginum þar sem við gátum skolað af okkur mesta sandinn og svitann. Daginn eftir gengum við svo fram á foss, svo að við komumst m.a.s. í kalda sturtu. Það var alveg ólýsanlega gott eftir allt labbið. Ég hafði ekki farið í meira en dagsferðir fram að þessu og átti því von á að koma til byggða með blöðrur á öllum tám og harðsperrur sem myndu endast út vikuna. En mér til óvæntrar ánægju reyndust göngusokkarnir sem ég keypti svo vel að ég fékk ekki eina einustu blöðru og reglulegar teygjur komu algerlega í veg fyrir eymsli, þótt ég hafi vissulega verið ansi lúin þegar ferðinni lauk.
Sigurður Gísli

Monday, 10 March 2008


Nú eru komnar tvær vikur síðan ég kom hingað en þær hafa liðið ansi hratt. Fyrsta vikan fór í að koma sér fyrir og mæta á fullt af kynningarfyrirlestrum sem voru misgóðir. Svo var líka slatti af skemmtunum til að leyfa öllum útlendingunum hérna að kynnast (hér eru u.þ.b. 2000 erlendir nemar af 40000). Ég eyddi líka talsverðum tíma í búðarápi sem er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Það bætir ekki úr skák að ég þekki ekki búðirnar og því gengur mér lítið að versla það sem mig vantar (m.a. herðatré, gallabuxur, bakpoka, salatskál og skurðarbretti). Síðasta vikan var talsvert strembin í skólanum, ég var á þönum milli kennslustofa (og villtist að sjálfsögðu inn í kolvitlausan fyrirlestur einn daginn) að skoða áfangana sem eru í boði hérna. Ég var í miklum vandræðum með að finna leiðbeinanda fyrir rannsóknarverkefnið sem ég er meðal annars skráður í, en það er komið á hreint núna. Ég er núna búinn að finna alla áfangana og fá samþykki hjá tilheyrandi yfirvöldum. Svo fór ég aftur í útibíó í garði hérna rétt hjá, í þetta skiptið horfðum við á "World's fastest Indian" undir stjörnubjörtum himni, alveg æðislegt, frábær stemning, góður matur og þrusugóð mynd.

Um helgina fór ég í partý til nokkurra „staðarstráka“ og svo í bæinn með þeim, þar lærði ég að Nýsjálendingar kunna alveg að lyfta ölkrús og tæma. Svo fór ég með sænskum félaga mínum á bílamarkað (car fair) þar sem hann keypti bíl sem ég lagði blessun mína yfir (vona bara að hann fari ekki að bila!). Svo fórum við niður á strönd í góða veðrinu og núna er ég með eldrauðan þríhyrning á maganum þar sem smá svæði varð útundan þegar sólarvörn var sett áJ.

Ég er búinn að skrá mig í fótboltaklúbbinn í skólanum og er að skoða hvort ég eigi að skrá mig í köfun líka. Um næstu helgi fer ég í helgarferð með fullt af öðrum útlendingum á stað sem heitir Bay of Islands, þar sem verður farið í siglingu og sitthvað fleira.

Við fjórmenningarnir sem búum saman erum farin að kynnast svolítið en félagskapurinn er strax byrjaður að skiptast í tvennt. Minn hópur (ég, Robert og Emma) eldar saman, verslar saman og er almennt duglegur við að deila hlutunum, mér finnst ég vera að færast nær hippakynslóðinni. En svo er það hinn hópurinn sem samanstendur af Ka Wei en hann eldar alltaf út af fyrir sig (það fyrsta sem hann keypti var 10 kg af hrísgrjónum) og eyðir ekki miklum tíma með okkur hinum. Hann er samt mjög almennilegur þótt hippinn í honum sé djúpt grafinn.

Veðrið hérna er búið að vera ótrúlega gott, bara einn eða tveir rigningardagar og yfirleitt sól og 20+ stiga hiti. Nýsjálendingar eru almennt vinalegir og þægilegir í umgegni, a.m.k. þeir sem ég hef hitt.

E.s. Ég vona að myndir og texti renni ekki saman núna, ég er enn að læra á þessa síðu:)

Thursday, 6 March 2008

Ferðasaga
Ferðalagið hingað hefur almennt gengið vel þrátt fyrir bras í byrjun (biluð vél þurfti að lenda aftur í Keflavík - 10 tíma seinkun). Ég eyddi nokkrum dögum í Köben hjá strákunum, sem var bara skidegodt. Við fórum út að borða og skoðuðum Carlsberg safnið og fleira skemmtilegt.
Fátt skemmtilegt gerðist í London en þar gisti ég eina nótt til þess að missa ekki af fluginu til Sydney. Flugið gekk mjög vel, tók tæpan sólarhring og ég var bara sprækur þegar ég lenti í Sydney að kvöldlagi. Vinur minn sem ég ætlaði að heimsækja í Sydney flutti því miður eftir að ég keypti flugmiðann en ég fékk mjög góðar móttökur hjá Ossur Australia Ltd. Ég skoðaði strendurnar í úthverfunum og fór í göngutúr meðfram sjónum, mig grunaði ekki að hægt væri að finna svona náttúrufegurð í stórborg. Svo spilaði ég fótboltann með strákum af gistiheimilinum sem ég bjó á og svo var líka tími fyrir nokkra kalda.
Skólinn í Auckland tók mjög vel á móti mér, það beið mín bílstjóri á flugvellinum sem skutlaði mér upp að dyrum á stúdentagörðunum sem ég bý á. Við erum fjögur sem deilum íbúð, hver með sitt herbergi, en annað sameiginlegt. Emma, belgískur lögfræðinemi, Ropert, Suður-afrískur bókhaldsnemi og Kawei frá Malasíu. Þau virðast öll vera ágætisfólk en við erum enn að kynnast.
Herbergið mitt er um 9 fermetrar og virkar frekar lítið. Hins vegar á ég ekkert dót (kom með 30kg frá Íslandi) svo það gerir ekkert til. Glugginn minn snýr út að hraðbraut en það er nú ekki svo slæmt. Engisprettur eða önnur kvikindi í trjánum fyrir utan eru miklu háværari.
Staðsetningin er frábær, ég er 5 mínútur að labba í skólann og er mjög nálægt miðbænum, ásamt því að hinum megin við hraðbrautina er almenningsgarður (fór út að hlaupa þar í morgun).
Ég er búinn að vera hérna í þrjá daga og þeir hafa að mestu leyti farið í að versla, kynningarfyrirlestra í skólanum og laga tölvuna mína, en hún fór í verkfall 10km fyrir ofan Færeyjar. Það hefur þó verið tími til að kynnast öðrum skiptinemum hérna, en í gærkvöldi fórum við í útibíó í almenningsgarði og horfðum á klassísku nýsjálensku myndina Goodbye Pork Pie, en hún er alveg stórfín, mæli eindregið með henni. Á laugardaginn verður síðan farið á ströndina og grillað. Veðrið hérna er búið að vera frábært, aðallega sólskin og 20-25 stiga hiti. Mér hefur þó verið sagt að ég megi búast við talsverðri rigningu í vetur.....
Meðfylgjandi eru vonandi tvær myndir úr herberginu mínu. Glöggir lesendur munu reka augun í límmiða á speglinum, en þetta er eina skreytingin sem fylgdi herberginu.