Wednesday, 25 June 2008

Strokkur rokkar!


Við erum nú á faraldsfæti, þar sem ég er í "jólafríi" milli anna í skólanum. Við höfum eytt síðustu viku í að keyra suður eftir norðureynni og erum núna stödd í góðu yfirlæti hjá frænku Hrannar. Á leiðinni hingað höfum við skoðað hella með ljósormum, nokkuð af jarðhitasvæðum og þar á meðal goshver sem átti að vera helmingi hærri en Strokkur. Við borguðum okkur inn í "Waiotapu Thermal Wonderland" og fylgdumst með þegar Lady Knox var gangsett með 300g af sápu. Vonbrigðin voru umtalsverð þar sem goshverinn er bara 6 metra há mjó buna af vatni og froðu. Þetta nær varla að jafnast á við það þegar einhver keyrir yfir brunahana í Hollywood mynd og við vorum sammála um að Strokkur væri alla vega 100 sinnum tilkomumeiri. Ísland - bezt í heimi! En hverirnir og leirpyttirnir voru samt mjög litríkir og fallegir og alveg ferðarinnar virði. Næst var haldið í vínsmökkunarferð í Hawke's Bay, þar sem við brögðuðum um 20 vín á þremur búgörðum (eins gott að við vorum með bílstjóra, þar sem íslenska blóðið bannaði algerlega að hrækja veigunum út úr sér). Síðasti leggurinn lá um grænar grundir til höfuðborgarinnar Wellington þar sem við skoðuðum risastórt lista-, náttúrufræði- og sögusafn. Við gáfum okkur líka tíma til að smakka nokkra bjóra í "Mac's Brewery" í miðbænum og lesa okkur aðeins til um bruggun.

Tuesday, 3 June 2008

Vetrarfrí

NýSjálendingar eru sjúkir í rúbbý. Landsliðið þeirra heitir All blacks og í hverjum einasta fréttatíma er sýnt frá æfingu hjá þeim og viðtal við leikmenn og þjálfara. Þeir fá bara ekki nóg. Þetta er einhver rosalegasta íþrótt sem ég hef séð. Allt öðruvísi en amerískur rúbbý þar sem leikmennirnir standa bara út á vellinum í brynjunum sínum af því að það er alltaf leikhlé. Það er ekki málið hér. Leikmennirnir eru allir yfir 1.80m og 100kg af vöðvum og það er aldrei leikhlé (nema náttúrulega í hálfleik), þeir eru ekki með neinar brynjur og hika ekki við að berja eða hlaupa næsta mann niður til að koma boltanum yfir línuna. Við skötuhjúin erum að fara á leik í kvöld, All blacks vs. England.
Ég veit ekki af hverju liðið heitir All blacks, sérstaklega af því að þeir spila í bláum búningum! Öll landslið hérna heita eitthvað, fótboltaliðið er All Whites, krikket liðið er Black caps og netball lið kvenna er Silver furns.

Undanfarnar tvær vikur hafa að mestu farið í rólegheit, rölta um borgina, finna skemmtilegar búðir, veitingastaði og kaffihús. Það hefur verið fínt en núna þarf ég að fá vinnu bráðum. Það tekur á að vera í fríi, sérstaklega þegar maður „gerir ekkert“. Sigurður Gísli lærir og lærir, enda í prófum. Á mánudaginn er síðasta prófið hans og þriðjudagurinn fer í að klára eh skýrsludruslu en á miðvikudaginn förum við í þriggja vikna road trip og ég get ekki beðið. Það er allt klappað og klárt og það eina sem vantar núna er ökumanninn. Maður fer víst ekki langt án hans. Ég get ekki keyrt hérna, ég hef ekki reynt það ennþá en ég á í mestu vandræðum með að fara yfir götur. Er alveg orðnin rugluð og veit ekkert úr hvaða átt bílarnir koma. Það er doldið skrýtið að vera bíllaus allt í einu á gamals aldri. Ég er enn að venjast því að geta ekki bara hoppað útí bíl og farið þangað sem ég vil. Almenningssamgöngurnar hér eru ótrúlega lélegar. Þannig að ég labba bara allt sem ég þarf að fara.

Í gær fór ég með Jónasi sænska og Jóhönnu þýsku kærustunni hans til Piha. Jónas er brettagæi og fer oft þangað til að surfa. Hann ætlaði að kenna mér en sagði að sjórinn væri of kaldur, þannig að ég á það inni hjá honum. Piha er ótrúlegur staður rétt fyrir utan Auckland, risastór strönd með svörtum sandi og stökum klettum hér og þar. Ég eiginlega get ekki lýst því, þið verðið bara að kíkja á myndirnar sem ég set inn seinna.

Um síðustu helgi tókum við okkur bílaleigubíl og keyrðum til Whangapharaoa en þar býr frændi. Hann er orðin 82 ára kallinn og þegar ég talaði við hann í síma misskildum við víst hvort annað. Hann bauð okkur að koma í heimsókn og ég hélt að hann hefði sagt okkur að koma late afternoon, en við áttum víst að mæta uppúr hádegi og þau voru orðin ansi áhyggjufull, voru meira að segja að íhuga að hringja á lögguna og kalla út leitarlið. Við komum til þeirra um hálffjögur og sátum hjá þeim í nokkra klukkutíma. Mér finnst alveg magnað að fara hinum megin á hnöttin og svo kemur í ljós að maður á skyldfólk þar.