Tuesday, 25 March 2008

Eldhryðja klifin!



Skólaverkefnin hrannast upp þessa dagana en ég hef verið duglegur að "þykjast" vera ferðalangur síðustu helgar, áður en að Vetur konungur tekur völdin hérna. Fyrir viku síðan fór ég í æðislega siglingu um "Bay of Islands" sem er nokkrar klst. norður af Auckland. Eitt af því sem er öðruvísi hérna er að heimamenn mæla vegalengdir milli staða í ferðatíma, en ekki í kílómetrum eins og við erum vön. Í fyrstu talsvert skrítið og jafnvel óþægilegt en það venst vel.
En, eins og gefur að skilja, þá veltur ferðatíminn á faraskjótanum og í þessi ferð var hann af verri endanum, Mercedes Bens 0303 rúta sem var alveg að gefa upp öndina. Þegar leiðin lá upp í móti emjaði vélin svo varla var hægt að tala saman en rútan rétt silaðist áfram.
Við vorum um 50 manna hópur útlendinga frá háskólanum mínum, langflestir Kanar og margir þeirra ansi hressir. Við sváfum á gistiheimili í bænum Paiha (sjá að ofan), sem var ekki merkilegt nema hvað að þar var heitur pottur, en svoleiðis fyrirbrigði hafði ég ekki búist við að sjá fyrr en heima á Fróni.


Á sunnudagsmorgni fórum við í siglingu á mótor/segl tvíbytnu með eldhressri fjögurra manna áhöfn. Við sigldum um eyjarnar á flóanum og rákumst meðal annars á þessa seglskútu. Veðrið var yndislegt og einugis ríkulegar smurningar með sólarvörn komu í veg fyrir húðkrabbamein og stórbruna. Um hádegið fórum við í land á einni eyjunni og lékum okkar á ströndinni, ég sá nokkra fiska og risastóran krossfisk þegar ég var að "snorkla"
Skólavikan var ekki merkileg svo ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hana, en páskafríið var nýtt til fullnustu. Joe, bandarískur strákur sem býr á sömu stúdentagörðum og ég, var að plana gönguferð um helgina og ég skellti mér með honum. Við fórum hring um eldfjallasvæði sem kallast Tongariro Northern Circuit á þremur dögum. Fyrir þá sem hafa áhuga (Hinrik) má lesa um svæðið hér.

Við klifum tvo fjallstinda, Mt. Tongariro og Mt. Ngauruho en það fjall er betur þekkt úr Lord of the Rings, sem Mt. Doom (ísl. Eldhryðja) og það stendur fyllilega undir nafni, var hrikalega bratt og erfitt yfirferðar.


Mt. Ngauruhoe séð úr fjarlægð. Fjallið er tæplega 2300 metra hátt og rís 1200 metra yfir næsta nágrenni.

Við Joe (sem sést hér að ofan) gengum samtals 60 km á þessum þremur dögum, aðallega um hraun og eyðileg svæði sem minna mikið á gamla góða skerið. Eftir tveggja daga göngu í mikilli sól þar sem hver vatnsdropi skipti máli, komum við að skógi vöxnu svæði.


Okkur til ómældrar ánægju rákumst við á ískalda á í skóginum þar sem við gátum skolað af okkur mesta sandinn og svitann. Daginn eftir gengum við svo fram á foss, svo að við komumst m.a.s. í kalda sturtu. Það var alveg ólýsanlega gott eftir allt labbið. Ég hafði ekki farið í meira en dagsferðir fram að þessu og átti því von á að koma til byggða með blöðrur á öllum tám og harðsperrur sem myndu endast út vikuna. En mér til óvæntrar ánægju reyndust göngusokkarnir sem ég keypti svo vel að ég fékk ekki eina einustu blöðru og reglulegar teygjur komu algerlega í veg fyrir eymsli, þótt ég hafi vissulega verið ansi lúin þegar ferðinni lauk.
Sigurður Gísli

Monday, 10 March 2008


Nú eru komnar tvær vikur síðan ég kom hingað en þær hafa liðið ansi hratt. Fyrsta vikan fór í að koma sér fyrir og mæta á fullt af kynningarfyrirlestrum sem voru misgóðir. Svo var líka slatti af skemmtunum til að leyfa öllum útlendingunum hérna að kynnast (hér eru u.þ.b. 2000 erlendir nemar af 40000). Ég eyddi líka talsverðum tíma í búðarápi sem er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Það bætir ekki úr skák að ég þekki ekki búðirnar og því gengur mér lítið að versla það sem mig vantar (m.a. herðatré, gallabuxur, bakpoka, salatskál og skurðarbretti). Síðasta vikan var talsvert strembin í skólanum, ég var á þönum milli kennslustofa (og villtist að sjálfsögðu inn í kolvitlausan fyrirlestur einn daginn) að skoða áfangana sem eru í boði hérna. Ég var í miklum vandræðum með að finna leiðbeinanda fyrir rannsóknarverkefnið sem ég er meðal annars skráður í, en það er komið á hreint núna. Ég er núna búinn að finna alla áfangana og fá samþykki hjá tilheyrandi yfirvöldum. Svo fór ég aftur í útibíó í garði hérna rétt hjá, í þetta skiptið horfðum við á "World's fastest Indian" undir stjörnubjörtum himni, alveg æðislegt, frábær stemning, góður matur og þrusugóð mynd.

Um helgina fór ég í partý til nokkurra „staðarstráka“ og svo í bæinn með þeim, þar lærði ég að Nýsjálendingar kunna alveg að lyfta ölkrús og tæma. Svo fór ég með sænskum félaga mínum á bílamarkað (car fair) þar sem hann keypti bíl sem ég lagði blessun mína yfir (vona bara að hann fari ekki að bila!). Svo fórum við niður á strönd í góða veðrinu og núna er ég með eldrauðan þríhyrning á maganum þar sem smá svæði varð útundan þegar sólarvörn var sett áJ.

Ég er búinn að skrá mig í fótboltaklúbbinn í skólanum og er að skoða hvort ég eigi að skrá mig í köfun líka. Um næstu helgi fer ég í helgarferð með fullt af öðrum útlendingum á stað sem heitir Bay of Islands, þar sem verður farið í siglingu og sitthvað fleira.

Við fjórmenningarnir sem búum saman erum farin að kynnast svolítið en félagskapurinn er strax byrjaður að skiptast í tvennt. Minn hópur (ég, Robert og Emma) eldar saman, verslar saman og er almennt duglegur við að deila hlutunum, mér finnst ég vera að færast nær hippakynslóðinni. En svo er það hinn hópurinn sem samanstendur af Ka Wei en hann eldar alltaf út af fyrir sig (það fyrsta sem hann keypti var 10 kg af hrísgrjónum) og eyðir ekki miklum tíma með okkur hinum. Hann er samt mjög almennilegur þótt hippinn í honum sé djúpt grafinn.

Veðrið hérna er búið að vera ótrúlega gott, bara einn eða tveir rigningardagar og yfirleitt sól og 20+ stiga hiti. Nýsjálendingar eru almennt vinalegir og þægilegir í umgegni, a.m.k. þeir sem ég hef hitt.

E.s. Ég vona að myndir og texti renni ekki saman núna, ég er enn að læra á þessa síðu:)

Thursday, 6 March 2008

Ferðasaga




Ferðalagið hingað hefur almennt gengið vel þrátt fyrir bras í byrjun (biluð vél þurfti að lenda aftur í Keflavík - 10 tíma seinkun). Ég eyddi nokkrum dögum í Köben hjá strákunum, sem var bara skidegodt. Við fórum út að borða og skoðuðum Carlsberg safnið og fleira skemmtilegt.
Fátt skemmtilegt gerðist í London en þar gisti ég eina nótt til þess að missa ekki af fluginu til Sydney. Flugið gekk mjög vel, tók tæpan sólarhring og ég var bara sprækur þegar ég lenti í Sydney að kvöldlagi. Vinur minn sem ég ætlaði að heimsækja í Sydney flutti því miður eftir að ég keypti flugmiðann en ég fékk mjög góðar móttökur hjá Ossur Australia Ltd. Ég skoðaði strendurnar í úthverfunum og fór í göngutúr meðfram sjónum, mig grunaði ekki að hægt væri að finna svona náttúrufegurð í stórborg. Svo spilaði ég fótboltann með strákum af gistiheimilinum sem ég bjó á og svo var líka tími fyrir nokkra kalda.
Skólinn í Auckland tók mjög vel á móti mér, það beið mín bílstjóri á flugvellinum sem skutlaði mér upp að dyrum á stúdentagörðunum sem ég bý á. Við erum fjögur sem deilum íbúð, hver með sitt herbergi, en annað sameiginlegt. Emma, belgískur lögfræðinemi, Ropert, Suður-afrískur bókhaldsnemi og Kawei frá Malasíu. Þau virðast öll vera ágætisfólk en við erum enn að kynnast.
Herbergið mitt er um 9 fermetrar og virkar frekar lítið. Hins vegar á ég ekkert dót (kom með 30kg frá Íslandi) svo það gerir ekkert til. Glugginn minn snýr út að hraðbraut en það er nú ekki svo slæmt. Engisprettur eða önnur kvikindi í trjánum fyrir utan eru miklu háværari.
Staðsetningin er frábær, ég er 5 mínútur að labba í skólann og er mjög nálægt miðbænum, ásamt því að hinum megin við hraðbrautina er almenningsgarður (fór út að hlaupa þar í morgun).
Ég er búinn að vera hérna í þrjá daga og þeir hafa að mestu leyti farið í að versla, kynningarfyrirlestra í skólanum og laga tölvuna mína, en hún fór í verkfall 10km fyrir ofan Færeyjar. Það hefur þó verið tími til að kynnast öðrum skiptinemum hérna, en í gærkvöldi fórum við í útibíó í almenningsgarði og horfðum á klassísku nýsjálensku myndina Goodbye Pork Pie, en hún er alveg stórfín, mæli eindregið með henni. Á laugardaginn verður síðan farið á ströndina og grillað. Veðrið hérna er búið að vera frábært, aðallega sólskin og 20-25 stiga hiti. Mér hefur þó verið sagt að ég megi búast við talsverðri rigningu í vetur.....
Meðfylgjandi eru vonandi tvær myndir úr herberginu mínu. Glöggir lesendur munu reka augun í límmiða á speglinum, en þetta er eina skreytingin sem fylgdi herberginu.