Thursday, 28 August 2008

Matarævintýri og sjálfsstæðisdagur


Við Hrönn fórum í asískan ofurmarkað um daginn á leiðinni heim sem hluta af "prófa nýjan mat herferðinni" okkar. Ég ákvað að byrja rólega og kaupa eggjanúðlur, lesa bara á pakkann og vera viss um að klúðra engu. Leiðbeiningarnar voru á ensku eða þar um bil: When taken, first it is required to stir-fry ingredients tin its cooked. Add condiments and some soup and then place in the Whole for 2-3 minutes and serve. Ótrúlegt en satt, þá var útkoman bara ágætismatur.
Við keyptum nýjan ávöxt sem heitir Paw Paw en við nánari skoðun kom í ljós að þetta var ávöxtur sem þekkist líka sem papaya og fyrsti hlutinn af honum bragðaðist frekar illa - við höldum að restin verði betri af því að eldast aðeins á borðinu:~)
Við fengum átta 50 gramma flök af einhverjum fiski sem ég get ekki einu sinni stafað fyrir 600 í "venjulegum" ofurmarkaði sem var í kvöldmat og bragðaðist dável.
Við skötuhjúin erum alveg orðin vön því að vera bíllaus og fara allra okkar ferða á tveimur jafnfljótum. Við tókum meira segja tröppurnar (5 hæð) eftir að hafa gengið heim úr New World matarbúðinni sem er ca kílómeter í burtu - og allt upp í móti þegar maður er á heimleið!
Þótt að skólinn hérna snúist mikið til um að læra alveg eins og heima, þá eru samt smáatriði sem eru öðruvísi, t.d. sá ég um daginn í skólanum að það var óvenjumikið af fólki í litríkum baðmullarfatnaði. Í hádeginu voru svo indverskir tónleikar í tilefni þjóðhátíðardags Indlands. Mjög skemmtileg tilbreyting frá lestrinum!
Við Hrönn fórum í göngutúr upp á Mt Eden, eitt af 53 þremur eldfjöllum í Auckland og þaðan er einmitt myndin efst á síðunni. Þetta var ekki mikil hækkun en útsýnið alveg frábært og það er á hreinu að fleiri eldfjöll verða klifin þegar veður leyfir.
Ég fór í vikulanga "vettvangsferð" (field trip) á jarðvarmasvæði hérna um daginn og er búinn að læra alveg heilan helling og hvernig á að veiða rafmagn úr iðrum jarðar - og greyið Hrönn líka þegar ég kom heim og talaði ekki um annað.

Við urðum vör við að framganga Íslands á Ólympíuleikunum fékk marga Nýsjálendinga til þess að horfa á sinn fyrsta handboltaleik. Flestum leist ágætlega á sportið, en ég sé ekki fyrir mér að það grípi um sig mikið handboltaæði hérna. Við fórum út í garð í dag í góða veðrið í smá fótbolta og þar var bara rúbbí eins og venjulega hjá staðarstrákunum.

Góðar stundir!

Monday, 18 August 2008

Star Wars var það heillin

Mikið rétt. Sigurði Gísla hefur einmitt verið líkt við R2D2 enda alltaf að sansa eitthvað.


Hvað hvarðar myndagátuna þá er þetta ekki mynd af hausnum á Sigurði heldur krúttlegur broddgöltur sem ég fann úti á götu.

Wednesday, 13 August 2008

Gettu betur

Um daginn var bíókvöld á heimilinu og í myndinni sem við horfðum á kom þessi gullmoli.

"For a mechanic you do an awful lot of thinking."

Ég sprakk úr hlátri af því að þetta á ansi vel við ákveðinn bifvélavirkja á heimilinu.
Nú spyr ég hver sagði þetta við hvern og í hvaða bíómynd?

Spurning 2
Hvað er þetta?

Wednesday, 6 August 2008

Fyrir fólk með einfaldan húmor

Þetta finnst mér rosalega fyndið