Tuesday, 29 July 2008

Fréttaskot

Takk fyrir afmæliskveðjurnar:) Ég átti bara fínan afmælisdag þrátt fyrir að hafa engan nálægt til að dekra mig.

Eftir því sem ég eldist því meira sæki ég í fréttir. Eins og ég þoldi ekki fréttatímann þegar ég var lítil! Fréttirnar hér eru frekar lélegar. Ég las t.d. um óveðrið sem geisaði hér um síðustu helgi á mbl! Mér finnst eins og lögð sé meiri áhersla á rúbbý og frægt fólk frekar en fréttnæma hluti. T.d þykir merkilegra að fyrirlið All blacks sé orðin spilfær eftir meiðsli heldur en að þrír létust í óveðrinu sem gekk yfir um síðustu helgi. Fyrirliðinn fær a.mk. meiri umfjöllun. Annað sem kemur mér á óvart er hversu mikið er um ofbeldi hérna. Morð, rán, klíkur og sérstaklega heimilisofbeldi. Það er ótrúlega mikið auglýst hérna, hvert eigi að leita eftir hjálp og að hvetja konur til þess. Á heimasíðu hérlendra Stígamóta kemur fram að ein af þremur NýSjálenskum konum upplifa líkamlegt og/eða kynferðislegt ofbeldi, einhvern tímann á lífsleiðinni, af hendi maka. Konur og börn eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi heima hjá sér en úti á götu. Mér finnst þetta ansi ótrúlegar tölur. Kannski er ég bara svona græn af því að ég er ekki vön slíku á litla Íslandi.

Óveðrið um síðustu helgi var það svaðalegasta í c.a áratug. Ég fann eiginlega ekkert fyrir því í Auckland enda var það verst fyrir sunnan okkur. Núna er önnur viðvörun, ekki jafn hvasst en spáð er 12 tíma úrhelli og miklum flóðum og þegar rignir hérna þá rignir. Um daginn var bara venjuleg rigning og flest niðurföll full og litlir lækir skoppandi eftir götunum.Sunday, 27 July 2008

All by myself.....


Afmælisdagurinn byrjaði ekki vel. Ég kvaddi Sigurð Gísla fyrir hálf átta í morgun. Hann fór í skólaferðalag að skoða orkuver og hveri einhversstaðar (hann mun örugglega skrifa æsispennandi ferðasögu þegar hann kemur heim) og ég er only the lonley í 6 daga. Ég þekki eiginlega engan hér og er ekki enn komin með vinnu (m.ö.o. atvinnulaus), ég hef því eiginlega ekkert að gera á daginn. Það sem verra er að ég á eiginlega engan pening og get ekki einu sinni keypt mér vini!

Ég spanderaði samt í dag (afmælisgjöf frá mér til mín). Fór í bíó á Auckland film festval og sá Shadow of the Holy book. Í fyrsta skiptið sem ég fer ein í bíó og það var hreinlega ekki svo slæmt. Myndin er drullugóð, fyndin og fær mann til að hugsa.

Afmæliskvöldverðurinn verður svo spagetti með léttsteiktu nautakjöti, portobello sveppum og parmesan osti og til að toppa einveruna, ein flaska hvítvín yfir star wars: the phantom menace.

Good times:)

Saturday, 19 July 2008

Vetrarferð


Suðureyja Nýja Sjálands hefur verið viðfangsefnið síðustu vikur. Við gistum fyrstu nóttina hjá frænku Hrannar (hún á skyldfólk út um allt hérna). Þau voru afskaplega gestrisin og bjuggu í húsi sem var kynt með einum viðarofni (6 herbergi). Næst fórum við í Abel Tasman þjóðgarðinn sem er alveg æðislegur. Þetta er einhver vinsælasti staðurinn hérna en þar sem það er hávetur þá áttum við staðinn nánast út af fyrir okkur. Við tókum "vatnaleigubíl" inn í þjóðgarðinn og fórum fyrstu dagleiðina á sjókajak með fram fallegri strandlengju fram hjá selavöðum og sandströndum. Nóttinni var eytt í frumstæðum trékofa og svo var gengið um 24 km til byggða í gegnum skóginn meðfram ströndinni.

Til að horfa á úrslitaleikinn á EM með nokkrum Þjóðverjum á hostelinu okkar, þurftum við að vakna klukkan hálfsjö sem er eiginlega fullsnemmt þegar maður er í fríi. Þjóðverjarnir áttu ekki í neinum vandræðum með að vakna og sumir fengu sér meira að segja bjór í morgunmat. Eftir það keyrðum við niður vesturströndina þar sem rigningin nær víst einhverjum 7000mm á ári. Við fögnuðum 8 ára afmælinu okkar í Greymouth, gistum á Hotel Revington, fórum í skoðunarferð um Monteith's Brewery og borðuðum "all you can eat BBQ", sem stóð ekki alveg undir nafni en dagurinn var nú samt góður þar sem mér tókst að koma Hrönn á óvart með því að kaupa handa henni Paua eyrnalokka (það er erfitt að kaupa óvænta gjöf handa einhverjum sem maður er með 24 tíma á sólarhring). Eftir að hafa kíkt aðeins á Frans Josef skriðjökulinn í smá rigningu keyrðum við lengra suður á bóginn og lentum í svo gríðarlegri rigningu að það sást varla út úr augum.
Í suður-Ölpunum, eins og þeir kalla fjallgarðinn sinn hérna, gistum við í Wanaka og Queenstown sem eru afskaplega fallegir bæir við fjallavötn. Við reyndum fyrir okkur á snjóbrettum sem var mjög gaman þar til fjallinu var lokað út af snjóbyl. Rútan sem við vorum á þurfti að stoppa til að keðja, þótt það væri nú ekki mikill snjór. Dekkin á rútunni voru hins vegar algerlega munsturlaus svo keðjurnar eru skiljanlegar. Nagladekk virðast óþekkt fyrirbæri hérna en hins vegar er sums staðar skylda að vera með keðjur ef færðin er ”þung”.

Við keyrðum norður eftir austurströndinni og stoppuðum á fjölmörgum stöðum til að skoða dýralíf og náttúrufegurð á leiðinni til Dunedin, sáum m.a. mörgæsir, sæljón og albatrossa. Í Dunedin gengum við eftir átthyrndum götum í miðbænum sem kallast the Octagon. Á leiðinni til Christchurch stoppuðum við á strönd með fullt af stórum kúlalaga steinum (1-2m í þvermál). Ég las jarðfræðiútskýringu á því hvernig þeir urðu til en ég ætla ekki að svæfa ykkur. Í Christchurch, sem er mjög falleg borg, var tímanum eytt í að þramma um götur bæjarins í sólskini og prófa kaffihúsin og veitingastaði.

Núna erum við komin ”heim” til Auckland aftur, alvara lífsins tekin við, ég að byrja í skólanum aftur og Hrönn í atvinnuleit. Við gáfum okkur samt tíma til að fara á kvikmyndahátið hérna í gær, við sjáum brasilísku myndina Tropa de Elite í risastóru leikhúsi og mælum eindregið með henni, hún nær spennu og gríni Hollívúdd mynda en er um leið átakanleg þar sem viðfangsefnið er talsvert raunverulegra en maður á að venjast.