Sunday, 16 November 2008

Við erum nýkomin heim frá Cook eyjum þar sem við eyddum síðustu viku. Ferðin var æði í alla staði og ég vildi að við hefðum getað verið í viku í viðbót. Eins og flestir vita erum við á heimleið og eigum bara nokkra daga eftir í Auckland. Ótrúlegt hvað hvað tíminn hefur verið fjlótur að líða. Ég hlakka mikið til að sýna myndir og segja sögur af ferðum okkar en þetta verður líklega síðasta færslan frá Nýja Sjálandi:( Þar sem við erum að loka netinu, rafmagninu og ganga frá lausum endum áður en við leggjum í´ann heim á þriðjudaginn.

Að lokum kemur ein lítil mynd af okkur hjónaleysunum með 50 kílóa túnfiskflykkið sem við veiddum á Cook:) Ekki amalegt eintak það!

Wednesday, 5 November 2008

Coromandel skagi

Vá hvað við höfum verið dugleg að skrifa

... Alveg heil færsla á mánaðar fresti. Við höfum brallað ýmislegt á þessum mánuði og hér kemur fyrsti hlutinn.Fyrir nokkrum vikum fórum við í 2ja daga ferð útá Coromandel skaga en hann er um 200 km frá Auckland. Við ætluðum að byrja á því að klífa Castle rock en útsýnið af toppnum á víst að vera frábært. Við komumst því miður ekki svo langt vegna vegavinnu og einkavega. Við héldum að við værum á leiðinni að fjallinu en í staðin keyrðum við í gegnum gamalt skógarhöggssvæði og allsstaðar komum við að lokuðum einkavegum.

Það er ótrúlega algengt hér að náttúruperlur séu í einkaeigu og fólk þurfi að borga til að sjá þær. T.a.m. er stærsti goshverinn á Nýja Sjálandi í einkaeigu sem og virkasta eldfjallið hér, White Island. Þetta er fáránlegt og ég er búin að pirrast mikið yfir þessu. Ímyndið ykkur ef þið mættuð ekki klífa Esjuna eða horfa á strokk gjósa án þess að punga út seðlum í hvert skipti.


Alla vega.... þegar Castle rock var úr sögunni héldum við rúntinum áfram.

Við tókum stutta göngu í gegnum skóglendi og skoðuðum Kauri tré en þau verða víst mjög gömul og stór.


Síðan var haldið á ströndina. Eftir um hálftíma göngu komum við niður að New Chums beach, ég held að ég hafi aldrei komið á jafn fallega strönd og í þokkabót vorum við næstum því ein allan tímann sem við vorum þar.Eftir frábæran dag á ströndinni fórum við til Whitanga en þar áttum við pantaða gistingu, eigandinn fann svo til með okkur útaf ástandinu á Íslandi að hann gaf okkur „Íslendingaafslátt“. Við rifum okkur á fætur um 6 leytið og brunuðum niður á Hot water beach, við þurftum að vera snemma á ferðinni útaf háfjöru. Undir ströndinni er 60°C heitt vatn og maður getur grafið sér holu í sandinn og notið þess að sitja í heitum potti alveg þangað til flæðir að aftur.Um níuleytið vorum við aftur komin á veginn á leið að skoða Cathedral Cove.


Eftir það var klukkan rétt að nálgast 11 og við áttum allan daginn eftir (sniðugt að vakna svona snemma). Við fórum aftur til Whitianga og Sigurður Gísli skellti sér á sjókayak en ég lá á ströndinni og las. Svo dúlluðum við okkur bara í afslöppun þar til við héldum aftur til Auckland um kvöldmatarleytið. Þessi ferð var algjört æði, veðrið lék við okkur og við fengum smá lit (meira rauðan en sólbrúnan).