Tuesday, 23 September 2008

Peningar í pósti

Um daginn fengum við Sigurður Gísli greiddan út arð frá rafveitunni. Við fengum endurgreiðslu upp á rúmar 19 þúsund krónur og við höfum ekki hugmynd um afhverju. Sérstaklega þar sem við höfum greitt um 19 þús í rafmagn síðan við fluttum inn. Þessir fjármunir koma sér sérstaklega vel núna þar sem heimilið þarf að fjárfesta í nýju skóhorni. Þannig er mál með vexti að sl laugardagskvöld sátum við skötuhjúin uppi í sófa og lásum þegar barið var að dyrum. Við urðum frekar hissa þar sem klukkan var tæplega ellefu að kvöldi og við áttum ekki von á neinum. Hérahjartað ég sendi Sigurð Gísla til dyra og eftir að hafa kíkt í gægjugatið á útidyrahurðinni ákvað hann að opna fyrir stelpunni. Hún reyndist vera all ölvaður maður með sítt hár og í engu nema jakka af kærustunni sinni. Kallgreyið hafði læst sig úti og vantaði eitthvað til að spenna gluggann upp með. Þar sem Sigurður treysti manninum ekki fyrir leddaranum (leatherman..) fékk hann plastherðatré og skóhorn. Hvorki hefur sést til herðatrésins né skóhornsins síðan, reyndar höfum við ekki séð til mannsins heldur. Við höfum mikið pælt í því hvernig hann fór að því að læsa sig úti allsber í jakka af kærustunni, sérstaklega þar sem hún var fjarri góðu gamni.

Saturday, 13 September 2008

Göngutúrinn mikli

Við erum að fara hingað . Það tók okkur bara 8 tíma að velja ákvörðunarstað og kaupa miðana. Sigurður var komin á það að stoppa bara í Færeyjum á heimleiðinni til að einfalda hlutina. Þetta hafðist þó allt að lokum og við eigum viku á paradísareyju í vændum. Við fjárfestum líka í flugmiðum heim og verðum komin á klakann í lok nóvember.

Laugardaginn 6.sept kynntumst við betri hliðum Auckland þegar við gengum „coast to coast“ (sjá kort hér) í blíðskaparveðri. Leiðin liggur frá norðurstönd til suðurstrandar borgarinnar í gegnum almeningsgarða og eldkeilur en hvort tveggja er á víð og dreif hérna. Faðir borgarinnar, John Logan Campbell var svo forsjáll á þarsíðustu öld að gefa borgarbúum almenningsgarð á stærð við Garðabæ. Þegar við gengum í gegnum hann voru tveir rúgbý leikir í gangi með nokkur hundruð áhorfendum,


fjölskyldur og vinir að grilla og leika sér á víð og dreif um garðinn. Í miðjum garðinum er eldfjallið One Tree Hill sem við gegnum uppá. Á uppleiðinni mættum við tveimur ofurhugum á kassabílum á fleygiferð niður fjallið (klikkað lið).


Það væri óskandi að Reykjavík ætti svona almenningsgarða en ekki bara ferköntuð tún á víð og dreif. Göngutúrinn endaði frekar dapurlega þegar við komum út að hálfþornuðu lóni við hraðbraut á suðurströndinni, við vorum ekki einu sinni alveg viss um að við værum komin á leiðarenda. Þrátt fyrir að Auckland búar telji almenningssamgöngur sínar ömurlegar fundum við strætó með lítilli fyrirhöfn og nokkurra mínútna bið. Allt í allt gengum við 20 km á 5 tímum og áttum því vel skilið að fá okkur einn kaldann við heimkomuna. Á miðnætti heilsaði Sigurður síðan uppá hresslinga með aðstoð veraldarvefsins og vefmyndavéla en Hrönn var alveg búin eftir gönguna og steinsvaf.

Wednesday, 10 September 2008

Poor Knights köfun

Um þarsíðustu helgi fórum við að kafa með köfunarklúbb Auckland Háskóla. Ferðinni var heitið til Poor Knight´s Islands sem eru um 2 klst norður af Auckland. Þessar eyjar eru á topp 10 lista hins fræga kafara Jacques Cousteau yfir bestu köfunarstaði í heimi (ásamt Silfru í Þingvallavatni). Á laugardeginum var siglt af stað í bítið og fengum við leiðsögn höfrunga að eyjunum.

Þar var kastað út akkeri og hent sér í sjóinn. Hrönn var ansi ryðguð og mundi varla eftir því að anda inn og út! Fyrsta köfunin fór því að mestu leyti í upprifjun og að læra að átta sig neðansjávar þar sem þetta voru fyrstu kafanirnar okkar án leiðsagnar. Eftir góðan hádegismat skelltum við okkur í kalda blautbúninga og aftur út í 14°C heitan sjóinn (sem er skítkalt). Kuldinn var hins vegar vel þess virði þar sem litadýrðin var engu lík og við rákumst á gaddaskötu (e. Stingray eins og drap Steve Irwin) ljóta moray ála og óteljandi fiskkvikindi af öllum stærðum og gerðum.


Daginn eftir var aftur haldið út að morgni til, í þetta skiptið ultum við frekar hressilega og nokkrir meðkafarar föðmuðu borðstokkinn og skiluðu morgunmatnum, einn var meira að segja svo sniðugur að gubba á blautbúninginn hans Sigurðar Gísla. Við eyjarnar var hins vegar blanka logn og frábær köfun. Við settum dýptarmet (30 m) og köfuðum inn í helli þar sem við enduðum í torfu af bláum mao mao fiskum.

Á heimsiglinunni varð flestum bumbult en sem fiskimannaafkomendur létum við það ekki á okkur fá. Eins og sést á myndinni hér að neðan á sjómannslífið svo vel við Sigurð að hann gat meira að segja leyst skipperinn af.


Myndirnar af skötunni og álkvikindinu eru fengnar héðan.