Wednesday, 10 September 2008

Poor Knights köfun

Um þarsíðustu helgi fórum við að kafa með köfunarklúbb Auckland Háskóla. Ferðinni var heitið til Poor Knight´s Islands sem eru um 2 klst norður af Auckland. Þessar eyjar eru á topp 10 lista hins fræga kafara Jacques Cousteau yfir bestu köfunarstaði í heimi (ásamt Silfru í Þingvallavatni). Á laugardeginum var siglt af stað í bítið og fengum við leiðsögn höfrunga að eyjunum.

Þar var kastað út akkeri og hent sér í sjóinn. Hrönn var ansi ryðguð og mundi varla eftir því að anda inn og út! Fyrsta köfunin fór því að mestu leyti í upprifjun og að læra að átta sig neðansjávar þar sem þetta voru fyrstu kafanirnar okkar án leiðsagnar. Eftir góðan hádegismat skelltum við okkur í kalda blautbúninga og aftur út í 14°C heitan sjóinn (sem er skítkalt). Kuldinn var hins vegar vel þess virði þar sem litadýrðin var engu lík og við rákumst á gaddaskötu (e. Stingray eins og drap Steve Irwin) ljóta moray ála og óteljandi fiskkvikindi af öllum stærðum og gerðum.


Daginn eftir var aftur haldið út að morgni til, í þetta skiptið ultum við frekar hressilega og nokkrir meðkafarar föðmuðu borðstokkinn og skiluðu morgunmatnum, einn var meira að segja svo sniðugur að gubba á blautbúninginn hans Sigurðar Gísla. Við eyjarnar var hins vegar blanka logn og frábær köfun. Við settum dýptarmet (30 m) og köfuðum inn í helli þar sem við enduðum í torfu af bláum mao mao fiskum.

Á heimsiglinunni varð flestum bumbult en sem fiskimannaafkomendur létum við það ekki á okkur fá. Eins og sést á myndinni hér að neðan á sjómannslífið svo vel við Sigurð að hann gat meira að segja leyst skipperinn af.


Myndirnar af skötunni og álkvikindinu eru fengnar héðan.

No comments: