Monday, 10 March 2008


Nú eru komnar tvær vikur síðan ég kom hingað en þær hafa liðið ansi hratt. Fyrsta vikan fór í að koma sér fyrir og mæta á fullt af kynningarfyrirlestrum sem voru misgóðir. Svo var líka slatti af skemmtunum til að leyfa öllum útlendingunum hérna að kynnast (hér eru u.þ.b. 2000 erlendir nemar af 40000). Ég eyddi líka talsverðum tíma í búðarápi sem er ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Það bætir ekki úr skák að ég þekki ekki búðirnar og því gengur mér lítið að versla það sem mig vantar (m.a. herðatré, gallabuxur, bakpoka, salatskál og skurðarbretti). Síðasta vikan var talsvert strembin í skólanum, ég var á þönum milli kennslustofa (og villtist að sjálfsögðu inn í kolvitlausan fyrirlestur einn daginn) að skoða áfangana sem eru í boði hérna. Ég var í miklum vandræðum með að finna leiðbeinanda fyrir rannsóknarverkefnið sem ég er meðal annars skráður í, en það er komið á hreint núna. Ég er núna búinn að finna alla áfangana og fá samþykki hjá tilheyrandi yfirvöldum. Svo fór ég aftur í útibíó í garði hérna rétt hjá, í þetta skiptið horfðum við á "World's fastest Indian" undir stjörnubjörtum himni, alveg æðislegt, frábær stemning, góður matur og þrusugóð mynd.

Um helgina fór ég í partý til nokkurra „staðarstráka“ og svo í bæinn með þeim, þar lærði ég að Nýsjálendingar kunna alveg að lyfta ölkrús og tæma. Svo fór ég með sænskum félaga mínum á bílamarkað (car fair) þar sem hann keypti bíl sem ég lagði blessun mína yfir (vona bara að hann fari ekki að bila!). Svo fórum við niður á strönd í góða veðrinu og núna er ég með eldrauðan þríhyrning á maganum þar sem smá svæði varð útundan þegar sólarvörn var sett áJ.

Ég er búinn að skrá mig í fótboltaklúbbinn í skólanum og er að skoða hvort ég eigi að skrá mig í köfun líka. Um næstu helgi fer ég í helgarferð með fullt af öðrum útlendingum á stað sem heitir Bay of Islands, þar sem verður farið í siglingu og sitthvað fleira.

Við fjórmenningarnir sem búum saman erum farin að kynnast svolítið en félagskapurinn er strax byrjaður að skiptast í tvennt. Minn hópur (ég, Robert og Emma) eldar saman, verslar saman og er almennt duglegur við að deila hlutunum, mér finnst ég vera að færast nær hippakynslóðinni. En svo er það hinn hópurinn sem samanstendur af Ka Wei en hann eldar alltaf út af fyrir sig (það fyrsta sem hann keypti var 10 kg af hrísgrjónum) og eyðir ekki miklum tíma með okkur hinum. Hann er samt mjög almennilegur þótt hippinn í honum sé djúpt grafinn.

Veðrið hérna er búið að vera ótrúlega gott, bara einn eða tveir rigningardagar og yfirleitt sól og 20+ stiga hiti. Nýsjálendingar eru almennt vinalegir og þægilegir í umgegni, a.m.k. þeir sem ég hef hitt.

E.s. Ég vona að myndir og texti renni ekki saman núna, ég er enn að læra á þessa síðu:)

6 comments:

Hrönn said...

Hæ sæti minn.

Úff hvað dagarnir þínir hljóma miklu betur en mínir. Ég vakna kl 6, tek strætó suður, er komin aftur á Akranesið um 18, borða læri og tek mig til fyrir næsta dag og þá er komin háttatími. Get ekki beðið eftir að komast til Nýja Sjálands.

bara 74 dagar :)

Bryndis said...

Gaman að lesa bloggið. Bara svipað veður hjá þér og okkur hérna heima... *hóst*

Have fun!

Anonymous said...

Hei til hamingju með daginn...

Bryndis said...

Já - til hamingju með afmælið í dag!

arnebjarne said...

hamingjuóskir frá Árna andfætlingi

Ingvar said...

Til hamingju með afmælið gamli.