Tuesday, 25 March 2008

Eldhryðja klifin!



Skólaverkefnin hrannast upp þessa dagana en ég hef verið duglegur að "þykjast" vera ferðalangur síðustu helgar, áður en að Vetur konungur tekur völdin hérna. Fyrir viku síðan fór ég í æðislega siglingu um "Bay of Islands" sem er nokkrar klst. norður af Auckland. Eitt af því sem er öðruvísi hérna er að heimamenn mæla vegalengdir milli staða í ferðatíma, en ekki í kílómetrum eins og við erum vön. Í fyrstu talsvert skrítið og jafnvel óþægilegt en það venst vel.
En, eins og gefur að skilja, þá veltur ferðatíminn á faraskjótanum og í þessi ferð var hann af verri endanum, Mercedes Bens 0303 rúta sem var alveg að gefa upp öndina. Þegar leiðin lá upp í móti emjaði vélin svo varla var hægt að tala saman en rútan rétt silaðist áfram.
Við vorum um 50 manna hópur útlendinga frá háskólanum mínum, langflestir Kanar og margir þeirra ansi hressir. Við sváfum á gistiheimili í bænum Paiha (sjá að ofan), sem var ekki merkilegt nema hvað að þar var heitur pottur, en svoleiðis fyrirbrigði hafði ég ekki búist við að sjá fyrr en heima á Fróni.


Á sunnudagsmorgni fórum við í siglingu á mótor/segl tvíbytnu með eldhressri fjögurra manna áhöfn. Við sigldum um eyjarnar á flóanum og rákumst meðal annars á þessa seglskútu. Veðrið var yndislegt og einugis ríkulegar smurningar með sólarvörn komu í veg fyrir húðkrabbamein og stórbruna. Um hádegið fórum við í land á einni eyjunni og lékum okkar á ströndinni, ég sá nokkra fiska og risastóran krossfisk þegar ég var að "snorkla"
Skólavikan var ekki merkileg svo ég ætla ekki að hafa fleiri orð um hana, en páskafríið var nýtt til fullnustu. Joe, bandarískur strákur sem býr á sömu stúdentagörðum og ég, var að plana gönguferð um helgina og ég skellti mér með honum. Við fórum hring um eldfjallasvæði sem kallast Tongariro Northern Circuit á þremur dögum. Fyrir þá sem hafa áhuga (Hinrik) má lesa um svæðið hér.

Við klifum tvo fjallstinda, Mt. Tongariro og Mt. Ngauruho en það fjall er betur þekkt úr Lord of the Rings, sem Mt. Doom (ísl. Eldhryðja) og það stendur fyllilega undir nafni, var hrikalega bratt og erfitt yfirferðar.


Mt. Ngauruhoe séð úr fjarlægð. Fjallið er tæplega 2300 metra hátt og rís 1200 metra yfir næsta nágrenni.

Við Joe (sem sést hér að ofan) gengum samtals 60 km á þessum þremur dögum, aðallega um hraun og eyðileg svæði sem minna mikið á gamla góða skerið. Eftir tveggja daga göngu í mikilli sól þar sem hver vatnsdropi skipti máli, komum við að skógi vöxnu svæði.


Okkur til ómældrar ánægju rákumst við á ískalda á í skóginum þar sem við gátum skolað af okkur mesta sandinn og svitann. Daginn eftir gengum við svo fram á foss, svo að við komumst m.a.s. í kalda sturtu. Það var alveg ólýsanlega gott eftir allt labbið. Ég hafði ekki farið í meira en dagsferðir fram að þessu og átti því von á að koma til byggða með blöðrur á öllum tám og harðsperrur sem myndu endast út vikuna. En mér til óvæntrar ánægju reyndust göngusokkarnir sem ég keypti svo vel að ég fékk ekki eina einustu blöðru og reglulegar teygjur komu algerlega í veg fyrir eymsli, þótt ég hafi vissulega verið ansi lúin þegar ferðinni lauk.
Sigurður Gísli

2 comments:

Anonymous said...

Mamma... komdu heim, okkur vantar einhvern til að skipuleggja hróarskeldu...

Siggi said...

haha - ég skal tala við Jönne