Wednesday, 8 October 2008

Heimur versnandi fer....

Baráttukveðjur til allra ykkar sem sitjið í súpunni heima. Ef illa fer skal ég senda matarpakka til þeirra sem hafa verið góðir við mig í gengum tíðina. Við Hrönn höfum eytt miklum tíma í það undanfarið að hala niður fréttum af þessari ógurlegu kreppu en skiljum samt frekar lítið í því sem er að gerast. Við vorum svo "heppin" að millifæra peninga frá Íslandi núna rétt fyrir helgi svo við erum í frekar góðum málum, svona miðað við aðra, alla vega þar til við förum að leita að vinnu heima.
Annars er allt gott að frétta héðan, mér gekk alveg ágætlega með stórt verkefni sem ég var að klára í skólanum og við fórum í grillveislu, sem var haldin innandyra vegna rigningar. Veðurspáin hérna er virkilega slæm, þeir spá stutt fram í tímann, ekki mjög nákvæmt og iðulega vitlaust. Í fyrrakvöld birtist maður frá almannavörnum í sjónvarpinu og sagði fólki að ganga frá lausamunum þar sem von væri á stormi kvöldið eftir. Við kíktum því á veðurfréttir um morguninn og þá var spáin fyrir Auckland "mostly fine" og ekki minnst einu orði á stormviðvörun úr fyrri spá. Mér skilst að þetta sé ekki vegna þess að allir veðurfræðingar hérna séu illa gefnir, heldur eru veðurskilyrðin hérna víst sérstaklega ófyrirsjáanleg.
Til þess að leggja okkar af mörkum í lausafjárkreppunni ætlum við að flytja heim 24 milljónir nýsjálenskra dollara sem til stendur að vinna í lottóinu hérna á laugardaginn. Ég myndi segja ykkur hvað það er í íslenskum krónum, en það er víst eitthvað á reiki núna.
Framundan hjá okkur er tvítugsafmæli hjá stelpu sem við fórum að kafa með um daginn, og næst þegar sólin skín (án rigningar) stendur til að fara niður á strönd. Myndirnar á Flickr verða uppfærðar fljótlega.

1 comment:

Ingibjörg said...

Þakka þér frændi höfðinglegt boð. Geri ráð fyrir að teljast til þeirra sem hafa verið þér góðir í gegnum tíðina. Þigg með þökkum léttan mat og gjarnan að þú komir heim og eldir hann - og kannski lítir á gamla fordinn í leiðinni - og kannski passir ungana í smá tíma.....