Monday, 30 March 2009

skemmtilegasti leikur í heimi

Oft þegar ég á að vera að læra finn ég mér eitthvað annað að gera í staðinn. Stundum dett ég í þennan leik.
This Traveler IQ was calculated on Sunday, March 29, 2009 at 10:31PM GMT by comparing this person's geographical knowledge against the Web's Original Travel Blog's 3,851,586 travelers who've taken the challenge.


Wednesday, 18 March 2009

Afsakið

Rosalega er mikið að gerast hér. Ég mundi allt í einu eftir þessari blessuðu síðu. Við Sigurður Gísli höfum verið doldið upptekin undanfarið og erum enn. Málið er bara að það er frá voða litlu að segja núna þegar við erum flutt heim og grámyglaður hversdagsleikinn tekinn við.
Hér er smá uppfærsla:
Ég er að vinna lokaverkefnið mitt í læknagarði, það gengur svona lala eins og lokaverkefni almennt ganga held ég. Hef eiginlega engan tíma né áhuga núna til að taka myndir, finnst allar ljósmyndirnar mínar ljótar núna :( Það breytist vonandi bráðum. Ég á samt eftir að setja heilan bunka inn á flickr. Vonandi hefst það fyrir árslok. Annars var ég að byrja á twitter.com/hronnsla veit ekki alveg af hverju það ætti að ganga betur en að blogga.
Sigurður Gísli er að vinn hjá Össuri og er í hálfu námi. Strákurinn er alltaf jafn upptekinn. Núna er hann að smíða rafmagnsbíl á kvöldin og um helgar og þegar hann er ekki í því spilar hann fótbolta með fc dragon. Allir að fylgjast með töffaranum á vellinum í sumar. Annars átti hann afmæli í síðustu viku, the big 30 og ætlar að halda uppá það í maí þegar hægist um.
Vonandi líða minna en þrír mánuðir í næstu færslu.

Sunday, 16 November 2008

Við erum nýkomin heim frá Cook eyjum þar sem við eyddum síðustu viku. Ferðin var æði í alla staði og ég vildi að við hefðum getað verið í viku í viðbót. Eins og flestir vita erum við á heimleið og eigum bara nokkra daga eftir í Auckland. Ótrúlegt hvað hvað tíminn hefur verið fjlótur að líða. Ég hlakka mikið til að sýna myndir og segja sögur af ferðum okkar en þetta verður líklega síðasta færslan frá Nýja Sjálandi:( Þar sem við erum að loka netinu, rafmagninu og ganga frá lausum endum áður en við leggjum í´ann heim á þriðjudaginn.

Að lokum kemur ein lítil mynd af okkur hjónaleysunum með 50 kílóa túnfiskflykkið sem við veiddum á Cook:) Ekki amalegt eintak það!

Wednesday, 5 November 2008

Coromandel skagi

Vá hvað við höfum verið dugleg að skrifa

... Alveg heil færsla á mánaðar fresti. Við höfum brallað ýmislegt á þessum mánuði og hér kemur fyrsti hlutinn.Fyrir nokkrum vikum fórum við í 2ja daga ferð útá Coromandel skaga en hann er um 200 km frá Auckland. Við ætluðum að byrja á því að klífa Castle rock en útsýnið af toppnum á víst að vera frábært. Við komumst því miður ekki svo langt vegna vegavinnu og einkavega. Við héldum að við værum á leiðinni að fjallinu en í staðin keyrðum við í gegnum gamalt skógarhöggssvæði og allsstaðar komum við að lokuðum einkavegum.

Það er ótrúlega algengt hér að náttúruperlur séu í einkaeigu og fólk þurfi að borga til að sjá þær. T.a.m. er stærsti goshverinn á Nýja Sjálandi í einkaeigu sem og virkasta eldfjallið hér, White Island. Þetta er fáránlegt og ég er búin að pirrast mikið yfir þessu. Ímyndið ykkur ef þið mættuð ekki klífa Esjuna eða horfa á strokk gjósa án þess að punga út seðlum í hvert skipti.


Alla vega.... þegar Castle rock var úr sögunni héldum við rúntinum áfram.

Við tókum stutta göngu í gegnum skóglendi og skoðuðum Kauri tré en þau verða víst mjög gömul og stór.


Síðan var haldið á ströndina. Eftir um hálftíma göngu komum við niður að New Chums beach, ég held að ég hafi aldrei komið á jafn fallega strönd og í þokkabót vorum við næstum því ein allan tímann sem við vorum þar.Eftir frábæran dag á ströndinni fórum við til Whitanga en þar áttum við pantaða gistingu, eigandinn fann svo til með okkur útaf ástandinu á Íslandi að hann gaf okkur „Íslendingaafslátt“. Við rifum okkur á fætur um 6 leytið og brunuðum niður á Hot water beach, við þurftum að vera snemma á ferðinni útaf háfjöru. Undir ströndinni er 60°C heitt vatn og maður getur grafið sér holu í sandinn og notið þess að sitja í heitum potti alveg þangað til flæðir að aftur.Um níuleytið vorum við aftur komin á veginn á leið að skoða Cathedral Cove.


Eftir það var klukkan rétt að nálgast 11 og við áttum allan daginn eftir (sniðugt að vakna svona snemma). Við fórum aftur til Whitianga og Sigurður Gísli skellti sér á sjókayak en ég lá á ströndinni og las. Svo dúlluðum við okkur bara í afslöppun þar til við héldum aftur til Auckland um kvöldmatarleytið. Þessi ferð var algjört æði, veðrið lék við okkur og við fengum smá lit (meira rauðan en sólbrúnan).

Wednesday, 8 October 2008

Heimur versnandi fer....

Baráttukveðjur til allra ykkar sem sitjið í súpunni heima. Ef illa fer skal ég senda matarpakka til þeirra sem hafa verið góðir við mig í gengum tíðina. Við Hrönn höfum eytt miklum tíma í það undanfarið að hala niður fréttum af þessari ógurlegu kreppu en skiljum samt frekar lítið í því sem er að gerast. Við vorum svo "heppin" að millifæra peninga frá Íslandi núna rétt fyrir helgi svo við erum í frekar góðum málum, svona miðað við aðra, alla vega þar til við förum að leita að vinnu heima.
Annars er allt gott að frétta héðan, mér gekk alveg ágætlega með stórt verkefni sem ég var að klára í skólanum og við fórum í grillveislu, sem var haldin innandyra vegna rigningar. Veðurspáin hérna er virkilega slæm, þeir spá stutt fram í tímann, ekki mjög nákvæmt og iðulega vitlaust. Í fyrrakvöld birtist maður frá almannavörnum í sjónvarpinu og sagði fólki að ganga frá lausamunum þar sem von væri á stormi kvöldið eftir. Við kíktum því á veðurfréttir um morguninn og þá var spáin fyrir Auckland "mostly fine" og ekki minnst einu orði á stormviðvörun úr fyrri spá. Mér skilst að þetta sé ekki vegna þess að allir veðurfræðingar hérna séu illa gefnir, heldur eru veðurskilyrðin hérna víst sérstaklega ófyrirsjáanleg.
Til þess að leggja okkar af mörkum í lausafjárkreppunni ætlum við að flytja heim 24 milljónir nýsjálenskra dollara sem til stendur að vinna í lottóinu hérna á laugardaginn. Ég myndi segja ykkur hvað það er í íslenskum krónum, en það er víst eitthvað á reiki núna.
Framundan hjá okkur er tvítugsafmæli hjá stelpu sem við fórum að kafa með um daginn, og næst þegar sólin skín (án rigningar) stendur til að fara niður á strönd. Myndirnar á Flickr verða uppfærðar fljótlega.

Tuesday, 23 September 2008

Peningar í pósti

Um daginn fengum við Sigurður Gísli greiddan út arð frá rafveitunni. Við fengum endurgreiðslu upp á rúmar 19 þúsund krónur og við höfum ekki hugmynd um afhverju. Sérstaklega þar sem við höfum greitt um 19 þús í rafmagn síðan við fluttum inn. Þessir fjármunir koma sér sérstaklega vel núna þar sem heimilið þarf að fjárfesta í nýju skóhorni. Þannig er mál með vexti að sl laugardagskvöld sátum við skötuhjúin uppi í sófa og lásum þegar barið var að dyrum. Við urðum frekar hissa þar sem klukkan var tæplega ellefu að kvöldi og við áttum ekki von á neinum. Hérahjartað ég sendi Sigurð Gísla til dyra og eftir að hafa kíkt í gægjugatið á útidyrahurðinni ákvað hann að opna fyrir stelpunni. Hún reyndist vera all ölvaður maður með sítt hár og í engu nema jakka af kærustunni sinni. Kallgreyið hafði læst sig úti og vantaði eitthvað til að spenna gluggann upp með. Þar sem Sigurður treysti manninum ekki fyrir leddaranum (leatherman..) fékk hann plastherðatré og skóhorn. Hvorki hefur sést til herðatrésins né skóhornsins síðan, reyndar höfum við ekki séð til mannsins heldur. Við höfum mikið pælt í því hvernig hann fór að því að læsa sig úti allsber í jakka af kærustunni, sérstaklega þar sem hún var fjarri góðu gamni.