Thursday, 6 March 2008

Ferðasaga




Ferðalagið hingað hefur almennt gengið vel þrátt fyrir bras í byrjun (biluð vél þurfti að lenda aftur í Keflavík - 10 tíma seinkun). Ég eyddi nokkrum dögum í Köben hjá strákunum, sem var bara skidegodt. Við fórum út að borða og skoðuðum Carlsberg safnið og fleira skemmtilegt.
Fátt skemmtilegt gerðist í London en þar gisti ég eina nótt til þess að missa ekki af fluginu til Sydney. Flugið gekk mjög vel, tók tæpan sólarhring og ég var bara sprækur þegar ég lenti í Sydney að kvöldlagi. Vinur minn sem ég ætlaði að heimsækja í Sydney flutti því miður eftir að ég keypti flugmiðann en ég fékk mjög góðar móttökur hjá Ossur Australia Ltd. Ég skoðaði strendurnar í úthverfunum og fór í göngutúr meðfram sjónum, mig grunaði ekki að hægt væri að finna svona náttúrufegurð í stórborg. Svo spilaði ég fótboltann með strákum af gistiheimilinum sem ég bjó á og svo var líka tími fyrir nokkra kalda.
Skólinn í Auckland tók mjög vel á móti mér, það beið mín bílstjóri á flugvellinum sem skutlaði mér upp að dyrum á stúdentagörðunum sem ég bý á. Við erum fjögur sem deilum íbúð, hver með sitt herbergi, en annað sameiginlegt. Emma, belgískur lögfræðinemi, Ropert, Suður-afrískur bókhaldsnemi og Kawei frá Malasíu. Þau virðast öll vera ágætisfólk en við erum enn að kynnast.
Herbergið mitt er um 9 fermetrar og virkar frekar lítið. Hins vegar á ég ekkert dót (kom með 30kg frá Íslandi) svo það gerir ekkert til. Glugginn minn snýr út að hraðbraut en það er nú ekki svo slæmt. Engisprettur eða önnur kvikindi í trjánum fyrir utan eru miklu háværari.
Staðsetningin er frábær, ég er 5 mínútur að labba í skólann og er mjög nálægt miðbænum, ásamt því að hinum megin við hraðbrautina er almenningsgarður (fór út að hlaupa þar í morgun).
Ég er búinn að vera hérna í þrjá daga og þeir hafa að mestu leyti farið í að versla, kynningarfyrirlestra í skólanum og laga tölvuna mína, en hún fór í verkfall 10km fyrir ofan Færeyjar. Það hefur þó verið tími til að kynnast öðrum skiptinemum hérna, en í gærkvöldi fórum við í útibíó í almenningsgarði og horfðum á klassísku nýsjálensku myndina Goodbye Pork Pie, en hún er alveg stórfín, mæli eindregið með henni. Á laugardaginn verður síðan farið á ströndina og grillað. Veðrið hérna er búið að vera frábært, aðallega sólskin og 20-25 stiga hiti. Mér hefur þó verið sagt að ég megi búast við talsverðri rigningu í vetur.....
Meðfylgjandi eru vonandi tvær myndir úr herberginu mínu. Glöggir lesendur munu reka augun í límmiða á speglinum, en þetta er eina skreytingin sem fylgdi herberginu.

No comments: