Monday, 7 April 2008

Munurinn á Íslandi og Nýja-Sjálandi

Það hefur frekar lítið skemmtilegt gerst hjá mér undanfarnar vikur þannig að ég eyði ekki miklu púðri í að segja frá því. Það sem er einna mest spennandi er þegar ég kíki á gengi íslensku krónunnar á hverju kvöldi. Þar sem slatti af peningunum sem við Hrönn munum eyða hérna, er á Íslandi er eins og ég sé að spila Lottó á hverjum degi.

Þrátt fyrir að hafa flutt á milli landa nokkrum sinnum og ferðast á milli landa ótal sinnum áttaði ég mig samt ekki á því að ég myndi fá (vægt) menningaráfall við það að flytja til hins „vestræna“ Nýja Sjálands. Þetta eru allt saman smáatriði, en samt hlutir sem ég tek eftir, stundum um leið, en stundum fatta ég ekki fyrr en eftir á að eitthvað sé pirrandi af því að það er aðeins öðruvísi. Tökum nokkur dæmi:

Ég rata ekki í búðunum hérna. Það tók mig rúman mánuð að finna eyrnapinna, ég var farinn að heyra illa vegna of mikils eyrnamergs.
Sódavatn (kolsýrt vatn) hérna er flatt – það er eins og það hafi verið opið á borðinu í viku.
Það vinna miklu fleiri í búðum hérna. Samt finnst þeim allt í lagi að láta mann bíða í smástund áður en þeir afgreiða. Mjög pirrandi fyrir stressaðan einstakling eins og mig.
Það getur verið erfitt að skilja Nýsjálendinga út af hreimnum, sérstaklega þá sem tala hratt. Helstu einkenni nýsjálensks hreims eru að segja i í stað e (þeir segja t.d. iducation í stað education) og að draga a á langinn í sumum orðum (caaaaaaar þýðir bíll).
Kalda vatnið úr krananum er ekkert kalt – það er volgt og ekkert sérstaklega gott.
Kaffið er yfirleitt ekki gott og kostar 180 kall í nemendafélagsjoppunum – ég sakna Verkvals.
Þeir keyra vitlausu megin á veginum – það er ótrúlegt að ég hafi ekki labbað fyrir bíl ennþá.
En það eru góðir hlutir líka....
Fólk bíður góðan daginn með því að segja „how are you?“ og það hljómar eins og þeim sé hreinlega ekki sama – langflestir Nýsjálendingar eru mjög vinalegir (ekki vinsamlegir heldur vinalegir).
Stúdentabarinn hérna bíður upp á „jugs“ sem eru líterskönnur af bjór á NZ $6.70 sem eru um tæpar 400 ISK (í dag alla vega) og meira að segja stelpurnar drekka beint úr þessum fullorðinsbjórum.
Það fæst sushi alls staðar – meira að segja í skólasjoppunni. Þeir svindla samt aðeins – og setja stundum eitthvað kjötkyns í staðinn fyrir hráan fisk.
En aftur að mér, ég átti afmæli um daginn og þá fékk ég kort frá samleigjendum mínum sem eru að meðaltali rúmum átta árum yngri en ég. Þau voru ekki lengi að taka upp þráðinn þar sem vinir mínir (hresslingar) slepptu honum og byrjuðu strax að skjóta á mig, eins og sést á myndinni hér að neðan.

Ég pantaði mér alklæðnað um daginn á netinu, nánar tiltekið Hress Megastore, mæli eindregið með þessu, myndin hér að neða segir allt sem segja þarf (þið stelpurnar getið m.a.s. keypt þveng með þessu eitursvala merki á).


Á föstudaginn er skiptinámskynning og þar verð ég með 10 mínútna fyrirlestur um Ísland, endilega sendið mér línu ef þið hafið einhverja hugmynd um af hverju það er góð hugmynd að læra á klakanum.

2 comments:

Unknown said...

Blessaður gamli,

Afmæliskveðjur frá Árna og Söndru!

Ingvar said...

Er enginn sól þarna niðri? Þú ert eins og snjókarl.