Monday, 21 April 2008

Köfun og landkynning

Nú hefur örlítið meira gerst heldur en síðast þegar ég skrifaði hérna. Ég fór í alveg æðislega köfunarferð með kafaraklúbb skólans um síðustu helgi. Ég kafaði 4 sinnum á tveimur dögum og skoðaði skipsflakið HMNZS Canterbury og neðansjávarhella. Þar sem ég hafði einungis kafað einu sinni undanfarin 5-6 ár var ég talsvert ryðgaður í þessu, en það kom allt saman fljótt aftur. Myndband úr köfuninni sést hérna, ég mæli með að þið hækkið hljóðið. Myndir af þessum ótrúlega viðburði eru væntanlegar á næstunni.



Við samleigjendurnir fórum á bar í hæstu byggingu Nýja Sjálands (Sky Tower, 319m) fyrir nokkru. Þar var ágætis stemming, lifandi tónlist (gamlir kallar, en samt alveg ágætir) og eldhress barþjónn, sem meðal annars bauð upp á logandi skot, eins og sést á vinstri myndinni.

Áður en ég fór að kafa kynnti ég Háskóla Íslands á skiptinámsráðstefnu hérna í skólanum. Ég bjó til einstaklega öfluga landkynningu í formi aflbendilssýningar (powerpoint show) og hélt fyrirlestur fyrir heilar ÞRJÁR manneskjur. Fyrirlesturinn gekk vel, fyrir utan það að ég gat ekki fengið myndvarpann í gang svo ég þurfti að halda fyrirlesturinn á fartölvunni minni. Hún varð síðan rafmagnlaus í miðri sýningu. Niðurstaðan er sem sagt sú að þið þurfið ekki að óttast fjölmenna innrás Nýsjálendinga í HÍ.

Það var frí í skólanum í síðustu viku. Samleigjendur mínir nýttu tækifærið og forðuðu sér, en ég sat heima og lærði. Það var frekar leiðinlegt og ég saknaði Hrannar en meira en venjulega þegar ég var svona alveg einn. En nú eru ”bara” 48.639 mínútur þangað til Hrönn kemur til mín. Ótrúlegt hvað maður finnur sér að reikna þegar maður á að vera að læra.

No comments: